Sunnudagur, 21. nóvember 2021
Nýja leiðin í strætó
Ég er búin að skoða nýja klappið til að kaupa far með strætó. Ég er alltaf hlynnt aukinni skilvirkni og mjög áfram um að innleiða gervigreind þar sem það liggur beint við. Það á líka við um strætó. En mér hefur fundist í kynningarherferðinni sem þetta snúist mest um að uppræta svindl.
Dæs.
Á Akureyri hefur verið ókeypis í strætó í meira en áratug. Bæjarstjórninni hefur ekki þótt ástæða til að bakka með þá ákvörðun þannig að væntanlega hefur hún þótt sanna sig.
Mín kenning er sú að ef fleiri nota strætó en einkabílinn sinn fækki slysum, mengun minnki, bæði á götum og í lofti, viðhaldskostnaður minnki og fólk fái gæðatíma í þægilegu sæti í stað þess að sitja stressað undir stýri.
Að sjálfsögðu virði ég sjálfsákvörðunarrétt fólks og ef það vill og verður að vera á bíl set ég mig ekki upp á móti því en borgaryfirvöld gætu komið til móts við fólk með því að bjóða ókeypis í strætó í einhver ár í tilraunaskyni. En auðvitað þyrftu leiðirnar að vera skýrar og eins fljótfarnar og hægt er. Auðvitað gengur ekki að fólk bíði í kulda og trekki í allt að hálftíma eftir næsta vagni.
Ég tek sárasjaldan strætó, eingöngu af því að ég er með næstum allt í göngu- og hjólafæri við mig. Skokkhópurinn minn hefur samt stundum tekið strætó, og ég þar með, í Mosó eða Fjörðinn til þess að skokka til baka. Með appinu hefur það verið þægilegt, allt í símanum, og væntanlega verður það ennþá handhægt með nýja klappinu en ég væri svo miklu meira til í að borga aðeins hærra útsvar og þurfa ekki að borga fyrir hvert far með gula bílnum.
Ég trúi ekki að ég sé í minni hluta með þessa skoðun.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.