Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson

Það er algjör tilviljun að ég kláraði hina stórkostlegu bók Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson í svörtu innkaupavikunni. Kaupagleðin er nú ekki að sliga neinn á Sjöundá og í grennd, hvorki nú né árið 1802 þegar helstu atburðir sögunnar urðu. Sagan er sönn, náttúrlega eitthvað skálduð eins og vera ber þegar sögumaður hefur bara heimildir frá öðrum og að auki heil öld liðin og rúmlega það frá atburðunum. Gunnar skrifaði söguna í Danmörku og gaf út þar og á því tungumáli 1929.

Hvert er söguefnið? Söguefnið er sá mikli harmur sem kveðinn var að Bjarna (41 árs) og Steinunni (33 ára) sem bjuggu á Sjöundá á Rauðasandi, hann með Guðrúnu (35 ára) og hún með Jóni (41 árs). Til þess er tekið í heimildum að bæði Bjarni og Steinunn hafi verið glæsileg og að sama skapi voru Guðrún og Jón (orðin) heldur ótótleg. Og Bjarni og Steinunn skutu sig hvort í öðru og fengu bágt fyrir í sveitinni, þótt einhverjir hafi haft samúð með hlutskipti þeirra. Hvor hjónin áttu fimm börn sem koma lítið við sögu.

Harmur Bjarna og Steinunnar var ekki eingöngu sá að vera ekki ætlað að eigast heldur að fyrir hálfgerða slysni fyrirkomu þau mökum sínum. Það sannaðist reyndar aldrei en þau játuðu eftir ótrúlega atburðarás í réttarhöldum. Strangt til tekið vitum við ekki enn hvort þau voru sek um það sem á þau var borið og sem þau meðgengu. Hljómar næstum kunnuglega þótt oft og iðulega heyrist setningin: Saklaus uns sekt er sönnuð.

Meðan ég var að lesa bókina hugsaði ég um forgengileika lífsins. Yfirvaldinu þótti ekki tilhlýðilegt að Bjarni og Steinunn gætu svo gott sem lógað Jóni og Guðrúnu - og hver getur andmælt því? Á hinn bóginn varð ekki vart við neina sérstaka meðlíðan þótt þrjú barna Bjarna og Guðrúnar króknuðu á árbarmi eða drukknuðu í ánni þegar þau ætluðu að læðast heim til sín. Eða þótt almúginn drægi varla fram lífið þrátt fyrir þrotlausa vinnu. Fólk var orðið gamalt og slitið um fimmtugt og þess vegna ímynda ég mér jafnvel að Bjarna hafi ekki þótt mikill fórnarkostnaður að gjalda fyrir framhjáhaldið með lífi sínu. Steinunn bar sig aumlegar þegar allt virtist stefna í líflát fyrir glæpinn.

Guðmundur Scheving sýslumaður sem dæmdi í þessu máli var kyndugur karakter. Sjálfsagt hefur hann verið vel haldinn í mat og drykk og þess umkominn að benda holdugum fingri á vesalingana á Sjöundá sem eygðu vott af gleði í öðru fólki en mökum sínum. Ég veit ekki hvernig sýslumaðurinn var í hátEyjólfur_Schevingt, kannski var hann spengilegur og matgrannur, en á þessum árum þótti það samt til marks um velgengni að vera vel í holdum. Sýslumaðurinn hafði alla þræði í höndum sér en þegar ég segi kyndugur er ég svolítið að hugsa um að þrátt fyrir yfirlæti og oflæti var hann ekki ósanngjarn með öllu. Hann hlustaði á mótbárur, eða þannig kom hann mér fyrir sjónir, þótt hann hafi verið staðráðinn í að koma sakborningunum í gapastokkinn.

Fyrir margt löngu las ég Glæp og refsingu eftir Dostóévskíj og sá í nokkra daga á eftir Raskolnikoff í öllum skúmaskotum. Ég veit ekki hvort þetta fortíðarfólk á eftir að skjóta upp kollinum í sundi eða Bónus en vangaveltur um viðeigandi refsingu fyrir glæp verða ábyggilega áleitnar á aðventunni.

Ég held nefnilega að samviskan sé harðasti húsbóndinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband