Ég er blóðgjafi

Mér er tekið blóð með mjög mannúðlegum aðferðum. Ég fæ djús og saltkex, gott og heilbrigt spjall um heilsuna og svo ligg ég á bekk meðan tæplega hálfur lítri rennur úr æðinni/æðunum. Á eftir fæ ég kaffi og kruðerí og birti mynd af blóðgjafarspjaldinu á Instagram.

Við megum reyndar ekki gefa blóð sama hvað. Konur mega gefa blóð á fjögurra mánaða fresti, ekki þegar þær eru þungaðar eða nýbúnar að eiga barn, ekki skömmu eftir að hafa fengið húðflúr og ég man ekki hvort það eru fleiri takmarkanir. Ef hér skyldi geisa stríð og blóðskortur vera átakanlegur mættu konur þó gefa blóð aðeins oftar en annars er hugsunin sú að við náum að birgja okkur upp aftur.

Það að merum sé tekið blóð getur ekki verið það háskalega, heldur hvernig það er gert. Ég hata illa meðferð á nokkru og nokkrum en er möguleiki að umræðan um blóðmerarnar hafi farið úr böndunum? Ég heyrði orðið blóðmerar í fyrsta skipti í síðustu viku, en er hugsanlegt að dýralæknar viti um illa meðferð og aðhafist ekki? Ég neita að trúa því nema mér sé sýnt annað. Ég er búin að sjá svipmyndir sem hafa gengið og mér ofbýður þegar dýr eru lamin. Ég fordæmi það, en sýna þessar myndir sannleikann í sinni nöktustu mynd?

Árni Stefán Árnason, lög­fræð­ingur sem sér­hæfir sig í lögum um dýra­vernd, sýnist mér reyndar hafa komist að þeirri niðurstöðu fyrir tveimur árum og eftir hverju erum við þá að bíða?

Ágúst Ólafur Ágústsson, þáverandi þingmaður, spurði um blóðmerahald í þinginu á svipuðum tíma og Inga Sæland þingmaður var fyrsti flutningsmaður að frumvarpi um að banna að taka blóð úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vöru til söluÞórarinn Ingi Pétursson bóndi svarar Ingu fullum hálsi og ver fyrirtækið sem hefur veirð í umræðunni, Ísteka. Einhvers staðar hafa því hugmyndir verið á kreiki og aðrir verið betur upplýstir um blóðtökuna en ég - en frumvarpið sofnaði í atvinnuveganefnd þannig að við vitum ekki hver örlög frumvarpsins hefðu orðið í atkvæðagreiðslu þingsins.

Ég minni á mína upplýstu og samþykktu blóðgjöf, núna rúmlega 60 sinnum. Eru það ekki sirka 27 lítrar? Þeir hafa að sönnu nýst læknavísindunum til að hlynna að sjúkum og þjáðum en eru ekki notaðir til að auka frjósemi dýra sem við ætlum síðan að borða.

Ég skal éta allt ofan í mig ef ég er á villigötum en umræðan virkar svolítið ofsakennd og þátttakendur í henni gætu sannarlega verið einstaklingar sem borða egg úr hænum sem eru geymdar í litlum búrum og fitaðar þangað til fæturnir brotna undan þeim. Nú væri vel þegið að fá heildstæða og upplýsta umræðu - og gjarnan breytta hegðun í kjölfarið - um illa meðferð á dýrum, já, og jörðinni í leiðinni. Við getum ekki leyft okkur að hrópa upp yfir okkur í augnablik og halda svo áfram að borða eldiskjöt sem er alið við ómannúðlegar aðstæður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Blóðið úr þér er ekki notað til að framleiða úr því hormónalyf til að gefa annarri dýrategund í eldisskyni og eins og þú réttilega nefnir er ekki tekið blóð úr þunguðum konum. Það er meginmunurinn.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.11.2021 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband