Laugardagur, 4. desember 2021
Dropinn holar steininn
Eftir einhver ár geri ég ráð fyrir að flestir verði undrandi á því að við skulum hafa borðað svona mikið kjöt árið 2021. Ég er bullandi sek, ég borða kjöt, ekki á hverjum degi en ég borða kjöt. Þegar ég hætti því, sem er spurning um hvenær en ekki hvort, á ég sjálfsagt ekki eftir að sakna þess. Við erum vanaföst og stundum tekur tíma að komast út úr óheilbrigðu mynstri.
En ég ætlaði ekki að dvelja svona lengi við mataræðið mitt hér, heldur benda á óhemjugott viðtal sem ég heyrði á Rás 1 í dag, viðtal við Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, ritstjóra Stundarinnar. Hún hafði ákaflega margt gagnlegt að segja og gerði það á yfirvegaðan og hófstilltan hátt sem ég held að hjálpi umræðunni mjög mikið. Hún var ekki að tala um mataræði eða dýraníð, þótt hún gæti vafalauast lagt þar margt gott til málanna, heldur var hún að tala um kynferðisofbeldi sem við erum sem betur fer farin að viðurkenna og hamast við að uppræta. Þótt Ingibjörg sé bara rúmlega fertug hefur hún sannarlega marga fjöruna sopið á sínum blaðamannsferli og ég vona sannarlega að hún endist þar lengur því að hún er á kórréttum stað í því krefjandi starfi sem felst í því að vera rannsóknarblaðamaður.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.