Sunnudagur, 12. desember 2021
Bankarnir
Mér finnst ég hafa heyrt eða lesið nýlega frétt um mikinn hagnað bankanna en þegar ég gúgla eru þær fréttir síðan fyrr í haust. Hins vegar er enginn vafi á því að bankarnir lepja ekki dauðann úr skel. Hvað veldur þessum ofsagróða? Vel rekin fyrirtæki?
Ég fékk þvottavélarviðgerðamann um daginn. Þegar hann var á förum spurði ég um reikning. Hann sagði að þau á skrifstofunni græjuðu hann. Alllöngu síðar, þremur vikum eða svo, barst hann í heimabankann og var þá 350 kr. hærri en gefið var upp á síðu fyrirtækisins. Munurinn fólst í seðilgjaldi. Seðilgjaldið var 2% af upphæðinni og á bak við það var engin sjáanleg þjónusta.
Hvert var vinnuframlag bankans? Hversu margir svona reikningar eru sendir út sem bankarnir hirða seðilgjöld af?
Þegar ég segi fólki hvað ég rukka fyrir mína verktakavinnu stendur sú upphæð. Ég sendi reikningana mína í gegnum Skúffuna ef um ríkisstofnun er að ræða en annars InExchange og þarf ekki að rukka seðilgjald. Af hverju komast bankarnir upp með þetta?
Athugasemdir
Nú veit ég nákvæmlega ekki neitt hvað gerist í bankakerfinu áður en reikningur birtist í heimabankanum mínum en þetta seðilgjald er nokkuð sem ég kannast vel við. Þetta er samt töluvert ódýrara en þegar sendir voru gíróseðlar eða hvað þeir hétu, ég man eftir að hafa borgað 900.-kr fyrir slíkan seðil frá heilbrigðisstofnun árið 2006. Svo blöskraði mér eitt sinn þegar ég gleymdi að borga reikning í heimabankanum, dróst um einn dag, þá var ég rukkuð um tilkynningagjald. Þarf ég að taka fram að ég fékk enga tilkynningu?
Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 12.12.2021 kl. 10:23
900 krónur!! Fyrir 15 árum! Ég man ekki eftir því en vefengi það ekki.
Berglind Steinsdóttir, 12.12.2021 kl. 12:05
Leiðrétting!
Það rifjaðist upp fyrir mér að það er ekki víst að ég fari með rétt mál þegar ég segi að innheimtuseðillinn hafi kostað 900.- kr Árið 2006 þurfti ég ítrekað að hitta lækni í Reykjavík, heimilislæknirinn sendi mig. Eitt sinn spyr séfræðingurinn hvort hann sé ekki búinn að sækja um niðurgreiðslu ferðakostnaðar fyrir mig, ég vissi ekki að það væri í boði svo ég hafði vitanlega ekki beðið um neitt slíkt. Læknirinn sendir umsókn til þeirra sem um það sjá (man ekki hvort þetta hét Tryggingastofnun eða Sjúkratryggingar), ég fæ höfnunarbréf, það var ekki réttur læknir sem sótti um, heimilislæknirinn átti að gera það, ég kem beiðni til heimilislæknisins um að hann sæki um fyrir mig sem hann gerði en ég fékk rukkun upp á fyrrnefndar níuhundruð krónur sem var sama upphæð og ég fékk í niðurgreiðslu fyrir hverja ferð.Ég hef því verið að borga lækninum fyrir ómakið líka. Rétt skal vera rétt, því miður held ég að téður seðill hafi ekki geymst svo ég get ekki staðreynt verðið en það er öruggt að ég man rétt að þetta var jafnvirði einnar Reykjavíkurferðar.
Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 12.12.2021 kl. 14:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.