Gott fólk - góða fólkið

Ég er að lesa sex ára gamla bók, Gott fólk eftir Val Grettisson. Fyrst verð ég að segja, eins og Friðrika Benónýsdóttir í umfjöllun sinni, að hún hefur farið undarlega hljótt. Ég fékk ábendingu um bókina fyrir mánuði og nú er ég búin að spyrja urmul af vel lesnu og meðvituðu fólki hvort það kannist við hana. Nei, fæstir, og ekki heldur leikritið sem Þjóðleikhúsið setti upp 2017.

Að efni máls: Gott fólk fjallar um Sölva sem var í einhvers konar sambandi við Söru. Þau hættu saman og tveimur árum síðar eða svo koma tveir sameiginlegir vinir þeirra með bréf til hans þar sem hún sakar hann um ofbeldi í sinn garð og hvetur hann til að líta í eigin barm, axla ábyrgð á ofbeldinu og verða betri maður.

Sölvi er til þess að gera venjulegur maður. Hann lítur inn á við og rifjar upp skipti sem hann kom illa fram við Söru án þess að beita ofbeldi sem skildi eftir sig líkamleg ummerki. Hann lagði sum sé aldrei hendur á hana og nauðgaði henni aldrei.

Var hann bara leiðinlegur kærasti eða smættaði hann hana, lítillækkaði, kúgaði og gerði lítið úr? 

Um það er bókin. Lesandinn er í raun þátttakandi í ábyrgðarferlinu sem er hrundið af stað með fyrsta bréfinu. Mér finnst hann ekki augljós ofbeldismaður - og ég hef sannarlega skorað mína eigin meðvirkni í gegnum tíðina á hólm - en mér finnst hann samt augljóslega þurfa að breyta hegðun sinni.

Sölvi er blaðamaður, dálítið áberandi, og þegar krafan um ábyrgðarferlið kvisast út finnur hann á eigin skinni afleiðingarnar. Vinnuframlag hans verður illa séð, hann fær ekki afgreiðslu á barnum, vinir og kunningjar verða tvístígandi.

Ég er þakklát fyrir þessa hugvekju frá óvæntu sjónarhorni en sá sem bloggaði upphaflega um sína eigin reynslu af ábyrgðarkerfinu kann blaðamanninum/rithöfundinum Val litlar þakkir fyrir að gera sér mat úr hans reynslu miðað við það sem haft er eftir honum. Gæti hann skorað rithöfundinn á hólm með ábyrgðarbréfi eða er rithöfundurinn í fullum rétti til þess að laga sannar sögur að sinni hugarsmíð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband