Ekki sprengja í óhófi

Það að kveikja ekki í flugeldum er ekkert mótlæti fyrir mig þar sem ég hef aldrei haft sérstakan áhuga á sprengingum. Ég get því trútt um talað þegar ég segi: Ekki sprengja.

En ég sá pistil á Facebook með góðum rökum um hvers vegna við ættum ekki að menga umhverfið og hræða dýr. Til vara vil ég segja: Ekki sprengja í tíma og ótíma. Takið mark á því þegar fólk varar við slæmum áhrifum á dýr, alls konar dýr. Takið mark á því þegar fólk talar um að börn hrökkvi upp af værum svefni. Takið mark á því þegar fólk talar um hvernig flugeldar menga umhverfið og stytta lífaldur jarðarinnar sem við búum saman á.

Ég sá aðra færslu í gær þar sem karl bað aðra karla á Facebook-síðunni Pabbatips að sleppa flugeldum en styrkja björgunarsveitirnar á aðra vegu ef hvatinn væri að láta gott af sér leiða. Pabbarnir sem höfðu hæst í svörum strengdu þess heit að kaupa tvöfaldan skammt, bæta við köku, láta bílinn vera í gangi á meðan og keyra um á nagladekkjum.

Ókei, ég varð mjög hissa á því að menn segi svona hluti og það undir nafni en sé þá að mótspyrnan er enn talsverð. Það er ekki eins og menn séu bara svona áhugasamir um að sjá himininn ljómast upp - sem ég skil að geti verið gaman - þeir eru líka forhertir og algjörlega blindir á þá glötun sem þeir flýta fyrir. Kannski eyðist jörðin sama hvað við reynum en ég er hissa á að sjá menn - sem líklega eiga börn ef þeir eru á Pabbatips - sem er slétt sama um hvernig börnum þeirra reiðir af á jörðinni.

En ég segi aftur: Vinsamlegast hugsið um afleiðingarnar af skammtímagleði. Skjótum fáum flugeldum og njótum þeirra mikið og vel á meðan. Virðum ferðafrelsi dýra. Virðum svefnró barna. Virðum jörðina okkar og framtíðina. 

Gleðilegt nýtt ár. kiss


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband