Drykkja eftir Thomas Vinterberg

Ég á ekki orð til að lýsa hrifningu minni á Drykkju eftir Thomas Vinterberg sem var á RÚV í gærkvöldi. Fjórir reffilegir karlar, þrír á sextugsaldri með engin börn eða uppkomin og einn um fertugt með ung börn, kennarar í framhaldsskóla, fá þá dillu í höfuðið að gera tilraun sem felur í sér að þeir eru með 0,5 prómill áfengis í líkamanum alla virka daga til kl. 20 á kvöldin. Þeir kaupa sér áfengismæli til að fylgjast með og skrásetja árangurinn á sérstökum fundum. Já, nú hætti ég beinni lýsingu því að þetta hljómar svo óáhugavert en almáttugur minn, myndin var svo skemmtileg, svo dönsk og svo stútfull af tilfinningum að hún ætti að vera skylduáhorf.

Rétt áður las ég bók Mána Péturssonar, Þú þarft ekki að vera svona mikill aumingi, sem ég mæli alveg með að menn lesi en helst fleiri saman og ræði kaflana. Ég er mikill aðdáandi Mána í útvarpinu fyrir að vera skýr og skorinorður, og ég held að hann sé eins hreinn og beinn og hann segist vera, en hans beittu og hnitmiðuðu kaflar eru einföldun eins og hann veit sjálfur. Stundum rekast heilræðin á, sbr. það að maður á að segja hug sinn allan og vera heiðarlegur en líka hlusta meira en tala. Ókei, ég sé að þetta virðist ekki rekast á en lesið bara bókina og þið sjáið það. Málið er bara að Máni ætlar sér ekki að bjarga öllum (karl)heiminum á 109 blaðsíðum, hann leggur fyrst og fremst til að við komum fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur. Og ég tek hatt minn ofan fyrir honum og hans miklu sjálfsvinnu í gegnum tíðina.

Aftur að myndinni. Ef einhver lesandi skyldi ekki horfa á hana verð ég að segja að tilraun félaganna brotlendir og þeir sjá að sér. Margt annað gerist sem gerir áhorfið þess virði þótt ég sé búin að ljóstra upp um það að þessir fjórir herrar gátu ekki haldið sér mjúkum allan vinnudaginn. 

Meðan ég horfði á myndina minntist ég manns sem dó fyrir allmörgum árum á besta aldri. Ég þekkti hann sem unglingur og þekkti hann ekki vel en hélt að ég hefði aldrei séð hann undir áhrifum. Á daginn kom svo einmitt að ég hafði aldrei séð hann edrú, og fæstir.

Áfengisneysla í óhófi er fokkings skaðvaldur, fólk getur auðveldlega misst stjórn á hófdrykkju og flestar fjölskyldur, kannski allar, þekkja einhvern sem er í vandræðum. Þess vegna lít ég meðfram öðru á þessa mynd sem innlegg í forvarnir.

En aðallega var hún svo skemmtileg!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband