Fimmtudagur, 6. janúar 2022
Bara ef það kemst upp ...
Eins og á við um marga aðra er mér brugðið við að lesa um atburð sem varð í heitum potti fyrir rúmu ári. Ég hef, út frá málvitund, ekki getað sagt setninguna: Ég trúi þolendum, en ég get sagt að ég trúi frásögn Vítalíu. Ég trúi að hún sé þolandi. Þeir fimm karlar sem hafa verið orðaðir við brot gegn henni hafa líka allir gengist við því eða þannig skil ég það þegar þeir víkja allir úr störfum og stjórnum.
Ég óttast samt að þeir geri eins og norsku Exit-gaurarnir, noti síðan peninga sína og völd til að snúa sig út úr þessu, en mikið innilega vona ég að þetta marki straumhvörf í baráttu gegn ofbeldi.
Mannskepnan er margs konar og ég er ekki svo bjartsýn að halda að glæpir verði upprættir, bara aldrei nokkurn tímann, ekki frekar en að allir verði siðlegir og kurteisir einstaklingar. En af framhaldi þessa máls ræðst hvernig þolendum mun reiða af til lengri tíma. Og hvort þeim fækki.
Enginn þekkir annan til fulls en ég fullyrði að ég þekki ógrynni geðugra karla sem koma vel fram við fólk. Enginn í baráttuhug heldur öðru fram. Baráttan gegn ofbeldi snýst bara um baráttu gegn ofbeldi og ofbeldismönnum.
Það sem ég hnýt um í umræðunni eru orð stjórnarformanns Íseyjar sem höfð voru eftir henni á Vísi um einn af gerendunum:
Við vissum af þessu strax í haust þegar þetta kom á samfélagsmiðlum og við tókum það mjög alvarlega. Þá var gert samkomulag við hann að ef það yrði eitthvað meira úr þessu, kærur eða eitthvað slíkt þá myndi hann óska eftir leyfi.
Í kvöldfréttum RÚV sagði hún að þau hefðu ekki getað brugðist við orðrómi. Nei? En gerandinn, er hann bara sekur ef það kemst upp um hann? Braut hann ekki á henni ef hún hefði veigrað sér við að tala? Og hefði hann þá mátt halda óáreittur áfram hjá Íseyju þótt hann hefði gert nákvæmlega það sem hún ber á hann og hann veit að hann gerði henni?
Það er nefnilega þessi setning: Saklaus uns sekt er sönnuð - hún er svolítið að missa slagkraftinn.
Athugasemdir
Þegar "Opnum aðra viskí félagar. Ég þekki stelpu sem er heimskari en pappírsrör, þagmælsk, sexí og sefur frítt hjá hverjum sem er. Og hún er á leiðinni hingað." tekur óvænta stefnu.
Dauði yfir réttarríkinu! Ásakendur eru ekki ásakendur, þeir eru þolendur! Látum ásakanir nægja! Og þeir sem ekki lýsa yfir skilyrðislausum stuðningi við ásakanirnar eru fylgjandi ofbeldi!
Lifi Lúkas!
Glúmm (IP-tala skráð) 6.1.2022 kl. 22:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.