Laugardagur, 8. janúar 2022
#égtrúi
Ég hef áður sagt að ég geti ekki sagt setninguna: Ég trúi þolendum.
Ég trúi samt að þolendur séu til, að þeir séu margir, þeir hafi ekki kært, þeir hafi bælt niður alls kyns tilfinningar, fundist þeir standa einir í baráttunni og ég er algjörlega sannfærð um að margir þolendur hafi átt erfitt líf og svo styttra líf en til stóð.
Ég stend með þolendum. Það er setning sem ég get sagt og staðið með.
Ég er líka sannfærð um að næstum engin manneskja lýgur upp einhverri sögu um hegðun valdamikils fólks, fylgir henni eftir og stendur með henni alla leið. Ég trúi að erfiðleikarnir við að ljúga þvílíku upp trompi einhverja meinta þórðargleði.
Ég trúi að við séum á tímamótum núna. Breytingar verða ekki án aðgerða og þær eru ekki sársaukalausar. Það er undir okkur sjálfum komið, öllum á hliðarlínunni líka, að gæta þess að byltingin sem við höfum horft upp á í vikunni koðni ekki niður. Fjölmiðlar spila stóra rullu því að þeir eru með áhorf, lestur og hlustun en við sem höfum sloppið betur í gegnum lífið berum líka ábyrgð á samborgurum okkar.
Ég á glettilega erfitt með að skrifa þetta á mína lítt lesnu og hljóðlátu bloggsíðu vegna þess að völdin níðast á fólki með skoðanir sem eru líklegar til að breyta kerfinu og afvalda valdamesta fólkið. Og ég vil ekki verða útsett.
Almáttugur, hvað það hlýtur að vera erfitt fyrir þolendurna að stíga fram og skila skömminni. Ég stend með þolendum og kannski á ég eftir að treysta mér seinna til að segja það hærra.
Sem ég er að fara að birta þetta rifjast samt upp fyrir mér árið 2007 þegar ég leyfði mér hér að hafa efasemdir um bankavöldin sem hreyktu sér fyrir takmarkalausa snilld sína. Ég er hófsöm í orðavali en samt birtust einhverjir Jóar og Stjánar og Stebbar í kommentakerfinu og báru á mig öfund. Þeir komu ekki fram undir nafni en fannst samt eðlilegt að væna mig, sem þeir vissu engin deili á, um að öfunda dúddana sem voru þá mest áberandi.
Athugasemdir
Og hverjir eru þessir þolendur? Eru það ákærendur eða hinir ákærðu? Er dómstóll götunnar og ásakanir Gróu á Leiti réttarkerfi eða ofbeldi?
Verð ég sjálfkrafa þolandi og þú gerandi við að segja þig hafa sett hönd niður í buxnastreng minn og gripið um lim á skemmtun fyrir 5 árum síðan? Á það að ráða hvort þú heldur vinnunni og hvort þú fáir vinnu héðan í frá? Hefði verið betra fyrir þig, hefðir þú sett höndina niður í buxnastrenginn, að drepa mig strax og taka út þá refsingu og vera þá laus allra mála?
Átt þú að fá að verja þig fyrir ásökunum án þess að vera þá sjálfkrafa talin sek? Og er það viðurkenning á sekt að svara ekki ásökunum?
Það þarf ekki lengi að hugsa og ekki mikið að skoða til að sjá að fólk lýgur stanslaust upp sögum um hegðun frægra og valdamikilla. Það er sérstök skemmtun og vinsælt áhugamál margra. Þær eru ófáar og svæsnar kynlífs-, peninga-, dóp- eða drykkjusögurnar af Bubba, Bjarna Ben, Kötu Jak, Biskupnum, Forsetafrúnni, Íþróttaálfinum og fleirum sem sagðar eru á kaffistofum og í fjölskylduboðum. Og ætíð eftir traustum heimildum.
Glúmm (IP-tala skráð) 8.1.2022 kl. 15:47
Þau okkar sem hafa orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að læra þýzku hafa sum lesið hina stórskemmtilegu bók Die Panne eftir Friedrich Durrenmattt en þar má finna eftirfarndi gullkorn
" eine Schuld werde sich schon finden lassen"
sem væri samkvæmt googeltranslate á okkar ylhýra
einhver sekt mun finnast
Grímur Kjartansson, 8.1.2022 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.