Mánudagur, 24. janúar 2022
Getuleysi Skattsins
Kannski fæ ég bágt fyrir þessa færslu.
Ég taldi fram of litlar verktakatekjur fyrir árið 2020. Ég var hluta ársins í námi og með svolitlar verktakatekjur en ekki fastar launagreiðslur. Svo taldi ég fram og taldi mig gera það allt rétt.
8. desember sl. fékk ég póst frá Skattinum. Hann var dagsettur og póststimplaður í Vestmannaeyjum 30. nóvember sl. Þar var mér gefið að sök að hafa talið of lítið fram og vísað í upplýsingar sem ég gaf sjálf upp í skattskýrslunni. Í einn reit hafði ég skrifað vitlausa samtölu. Ég er ekki vitlaus, ekki einu sinni í tölum, en framtal er nánast það leiðinlegasta sem ég geri þannig að ég kastaði aðeins höndunum til þessa smáræðis.
Ég gengst strax við mistökunum. Nokkrir tölvupóstar fara á milli mín og starfsmanns Skattsins. 7. janúar sl. sendi ég nýja rekstrarskýrslu. Núna áðan, 24. janúar, tek ég úr bréfalúgunni gluggapóst frá Skattinum þar sem mér er gert að greiða meiri skatt, samt ekki nein krónutala nefnd. Sá póstur er dagsettur og póststimplaður í Vestmannaeyjum 17. janúar. Undir skrifar starfsmaður staðsettur á Laugaveginum. Mér er gefinn kostur á að andmæla þessari viðbót sem ég var búin að gangast við að skulda.
Ég skil ekki þessi vinnubrögð. Ég skil ekki af hverju ég fæ bréfpóst sem silast um hverfin og ég skil ekki af hverju ég var ekki bara spurð hvort ég gæti hafa gert mistök í framtalinu án þess að vísa holt og bolt í lagagreinar.
Í svarinu mínu 7. janúar bað ég um að fá að greiða skuldina í einu lagi. Ég spurði líka hvort hægt yrði að rukka framtíðarálögur vegna verktakatekna í einni greiðslu en því var ekki svarað. Það passar líklega ekki í formið.
Ég hef einu sinni átt í útistöðum við Skattinn. Hann gerði mistök og gekkst við því. Það tók ár og daga að fá úr því skorið.
Ég mun héðan í frá aldrei vorkenna Skattinum þegar hann hefur mikið að gera. Hann ber alla ábyrgð á því sjálfur.
Kannski fæ ég bágt fyrir þessa færslu, eins og ég hóf þennan pistil á að skrifa. Kerfið er svo meinlegt að ég trúi því til að pönkast á þeim sem gagnrýna eða andmæla. En ég hef engan áhuga á að svíkja undan skatti, ég hef bara áhuga á að hafa kerfið skilvirkara en það er.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.