Laugardagur, 19. febrúar 2022
Styrkir og arðgreiðslur
Ég á smáaur í verðbréfum. Safnið er í Stefni - Samvali hs. Ég er búin að eiga þetta lengi og hef séð upphæðina fara upp og niður. Sum árin hafa verið í mínus. Þegar maður fjárfestir í áhættu getur maður átt von á góðum gróða eða tapi, í því felst áhættan.
En ekki í augum framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins:
Halldór Benjamín segir ekkert óeðlilegt við það að fyrirtæki greiði út arð þrátt fyrir að hafa þegið ríkisstyrki vegna heimsfaraldurs Covid-19.
Segir. Ekkert. Óeðlilegt.
Ríkt fólk getur ekki gert endalausa kröfu um aukið ríkidæmi. Fólk á ekki að setja í áhætturekstur peninga sem eiga að duga fyrir eðlilegri framfærslu. Áhættufé getur tapast - en tapast ekki hjá þeim sem vilja einkavæða gróðann og ríkisvæða tapið og fá að ráða.
Segin saga. Gömul saga. Margendurtekin saga. Óþolandi í alla staði.
Tek fram til öryggis, vegna riddara gróðapunganna sem stundum villast hingað inn, að ég öfunda ekki framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins af gróðastöðu sinni. Ég hef hins vegar séð færslur hjá honum á Twitter og þær eru oft meinfyndnar. Hann mætti nota kímnigáfuna oftar í viðtölum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.