Aumingja kapítalistarnir

Ég er meðvirk. Ég vorkenni kapítalistunum og fæ reglulega samviskubit þegar ég er ekki nógu dugleg að fara í búðir og kaupa. Samt á ég fulla skápa af fötum sem ég er búin að gleyma og sem ég passa sum ekki í. Ég fæ örari hjartslátt þegar ég er ekki nógu dugleg að kaupa tilbúinn mat. Samt fer ég í úrvalsbúðir og kaupi gott brauð og sushi í miklu magni þegar ég býð völdum gestum í mat. Ég fer líka á veitingastaði og kaupi mat sem einhver annar leggur á borðið hjá mér og vaskar upp eftir mig.

Gráðugir einstaklingar hafa komið óorði á kapítalistana. Kapítalisti er skv. Snöru:

(samkvæmt marxískri kenningu) sá sem ávaxtar eignir sínar (beint eða óbeint) með (launa)vinnu annarra.

stórríkur maður, auðjöfur

Líka skv. Snöru:

maður sem nýtur arðs af eignum sínum. 2. auðjöfur. 3. auðvaldssinni.

Sannur kapítalisti þarf að hætta fé sínu og taka áhættu. Stundum er sagt að menn geti ekki náð árangri nema mistakast líka. Af mistökunum megi draga hvað mestan lærdóm. Mistökum getur fylgt tjón. Ég tek ofan fyrir þeim kapítalistum sem taka áhættu, reka sig á, bæta sig og uppskera almennilega. Það er bara svo skrambi erfitt að þekkja þá úr. Nú, eftir tvö ár af faraldri, er ég ekki viss hvar skikkanlegu veitingamennirnir, flugrekendurnir, fatasalarnir, hárgreiðslumeistararnir og blaðamennirnir halda sig og hvar ég á að versla til að styrkja heiðarlega kapítalista sem hafa dregið vagninn sjálfir.

Og ég er í alvörunni meðvirk vegna þess að ég á það til að kaupa eitthvert drasl og einhvern óþarfa handa mér og handa öðrum í stað þess að kaupa það sem mig langar í þegar mig langar í það. Ég er nefnilega neyslugrönn að eðlisfari ... en líklega hefur meðvirknin verið alin upp í mér af neyslusamfélaginu - sem ég held að sé að breytast.

Ég versla í Rauðakrossbúðunum af því að mér líka vörurnar og vilja gefa þeim framhaldslíf og ég ferðast á hjóli af því að ég upplifi sjúklega mikið frelsi á hjólinu. Ég er loks búin að átta mig á að mér líður illa í dýrustu flíkunum sem ég kaupi ... og bíllinn - ja, hann er bara fastur í skaflinum fyrir framan húsið. En ég þakka innilega fyrir að þurfa ekki að kaupa mér fasteign í Reykjavík í bráð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband