Fermetraverðið milljón?

Ég hlustaði á Bylgjuna á leiðinni heim áðan. Þar var frambjóðandi til 1. sætis Sjálfstæðisflokksins, Ragnhildur Alda, í viðtali. Ég hlustaði á annað viðtal við hana og Hildi í gær og mig varðar miklu hvaða skoðanir þær hafa og þekkingu því að þær eru báðar líklegar til að hafa áhrif á næsta kjörtímabili í borginni. 

Frá mínum sjónarhóli erum við Ragnhildur ósammála um þéttingarstefnu og almenningssamgöngur en eitt nefndi hún í báðum viðtölunum sem við getum verið innilega sammála um, nefnilega snjallumferðarljósavæðinguna. Það er ákaflega hvimleitt að standa eða sitja undir tímastýrðum umferðarljósum þegar enginn virðist mega fara yfir. Ég lendi iðulega í því á hjólinu mínu. Reyndar lendi ég líka í því að tíminn sem er skammtaður til að komast gangandi yfir gangbraut er á mörkunum að duga fyrir fullfríska manneskju, hvað þá lasburða.

En það sem ég hjó mest eftir og var þess vegna að reyna að finna viðtalið á vefnum var þegar hún sagði að fermetraverðið væri orðið milljón. Ég er mjög vel sett í minni 111 fermetra íbúð en hefði ekki sett hana í sölu á 111 milljónir að óreyndu. Ég veit að fasteignamarkaðurinn er orðinn alveg gaggalagú en í verðsjánni er það á bilinu 500.000-600.000 kr. á fermetrann. 

Auðvitað hefði verið næs að þáttastjórnendur hefðu hváð en hún fékk að halda orðinu dálítið ein og sjálf í viðtalinu. Gallinn við að heyra mörg viðtöl við frambjóðendur er að maður heyrir miklar endurtekningar. Kostur væri ef þau þyrftu að svara spurningum.

Meiningin er ekki að kasta rýrð á neinn, hvorki frambjóðendur né þáttastjórnendur - kannski ber ég mig bara of mikið eftir töluðu máli. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband