Mánudagur, 7. mars 2022
Gísli Marteinn og fyrrverandi fréttamaðurinn
Ég er ekki búin að hugsa um þetta linnulaust í þrjá daga, ég þvertek fyrir það, en ég varð fyrir áfalli þegar ég horfði á Vikuna á föstudaginn. Ég hef gaman af Gísla Marteini og mörgum gesta hans, væri samt til í aðeins meiri breidd og sjaldnar fólk sem hefur komið margoft. En hættu nú alveg, hvað það var hallærislegt að leyfa Einari Þorsteinssyni að kynna framboð sitt til borgarstjóra í beinni útsendingu á góðum áhorfstíma.
Það er ekki séns í heitasta helvíti að þáttastjórnandinn hafi ekki vitað að maðurinn væri með grænt xB-merki í bak og ... já, aðallega bak.
Ég horfði ekki á söngvakeppnina á laugardaginn. Ég var upptekin en þótt ég hefði þurft að velja á milli söngvakeppninnar og þess að horfa á salthnetu í einn og hálfan klukkutíma hefði salthnetan haft vinninginn. Ég horfði nefnilega fyrir viku og er enn að jafna mig á leiðindastuðlinum. Þrír kynnar, fimm lög, 700 sinnum áskorun um að kjósa og fimm auglýsingahlé - ekki mín hugmynd að skemmtilegu sjónvarpi. En svo las ég eftir þátt helgarinnar að GDRN hefði fengið gjafir sem tóku stóran hluta af útsendingunni.
Ég er ekki að kvarta yfir dagskránni, ég er að kvarta yfir lélegri þáttagerð og því að farið sé illa með tíma fólks. Hvaða tegund af fólki hefur gaman af söngvakeppni sem gengur ekki út á söng?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.