Þriðjudagur, 8. mars 2022
Skatturinn, 4. þáttur
Nú megum við telja fram til skatts. Glugginn er opinn í hálfan mánuð. Hjá launþegum er (flest)allt forskráð en grey litli verktakinn þarf að puðast í gegnum rekstraryfirlit (4.10) eða rekstrarskýrslu (4.11). Ég puðaðist í gegnum þetta í fyrra en kynnti mér greinilega ekki nógu vel muninn á 4.10 og 4.11 og ég held að Skatturinn verði ekki vændur um að halda viðkomandi upplýsingum að litlu verktökunum.
Þegar ég skilaði í fyrra fékk ég þau skilaboð að framtalið væri villulaust. Svo leið fram á árið og ég fékk álagningu. Þegar dró að jólum fékk ég gluggapóst frá Vestmannaeyjum um að ég hefði vantalið verktakatekjur. Löng saga sem ég er þegar búin að segja.
Ég átti að borga meira og gerði það á gjalddaga sem var bara nokkrum dögum eftir að ég fékk seinna bréfið með skipapóstinum frá Eyjum, 18. febrúar. Um mánaðamótin voru síðan 75% af mánaðarlaununum mínum dregin af mér og engin skýring gefin önnur en sú að Skatturinn hefði krafist þess. Þegar ég grennslaðist betur fyrir um málið var þarna komin skuldin sem ég var búin að greiða. 17. hvers mánaðar fær nefnilega launagreiðandinn upplýsingar um skuldastöðu en þið eruð búin að átta ykkur á að skuldin var ekki einu sinni gjaldfallin þegar Skatturinn sendi reikninginn í innheimtu.
Þetta var leiðrétt en ég hafði ærna fyrirhöfn af þessu og nokkrir fleiri hjá hinu opinbera.
Nú eru spennandi dagar framundan hjá mér. Skyldi ég ráða gátuna og geta lagt saman 100.000 og 500.000 án þess að setja Skattinn í Vestmannaeyjum í uppnám?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.