Laugardagur, 12. mars 2022
Okkar eigin Sif
Ég les alltaf pistla Sifjar Sigmarsdóttur sem birtast í Fréttablaðinu á laugardagsmorgnum. Ég þekki aðeins til hennar og um hana er ekkert nema gott að segja. Það er næstum undarlegt hvað henni tekst alltaf að setja stærri og smærri mál í skýrt samhengi. Kannski gerir fjarveran frá nafla Íslands það að verkum.
Í morgun er hún með enn einn góða pistilinn. Evrópusambandið hefur reyndar aldrei verið þungamiðjan í mínu lífi en hvað sem við köllum bandalög eiga þjóðir heimsins að standa saman. Við eigum sem mannkyn að standa vörð um jörðina sem við byggjum og við eigum að reyna að hugsa út frá heildinni en ekki eiginhagsmunum okkar. Boris Johnson virðist einmitt hafa látið naflann á sér ráða gjörðum sínum þegar Brexit varð að veruleika og varla er Pútín að hugsa um hagsmuni heildarinnar þegar hann lætur sprengja upp sjúkrahús.
Í hálfan mánuð er ég búin að hugsa: Ég get skilið að heimsstyrjaldirnar hafi orðið í ljósi upplýsingafátækar, sjaldgæfra skipaferða, stopulla símtala milli landa og alls þess sem hélt fólki í þekkingarleysi. En núna þegar við erum með ljósmyndara í Kíev sem segir okkur milliliða- og undanbragðalaust frá því hvernig lífið er í Úkraínu, þegar Rússar hafa farið úr landi og komið aftur heim, þegar fréttir berast af mannfalli fólks á leið á skrifstofuna sína og þegar maður sér á YouTube myndband af skriðdreka keyra yfir fólksbíl er óskiljanlegt með öllu að geðveiki Rússinn sé ekki stoppaður.
Já, ég veit að hann hefur víst aðgang að efnavopnum og menn óttast að hann beiti þeim - en af hverju hefur hann aðganginn? Af hverju hefur hann komist upp með að ljúga að þjóð sinni að hann og tindátar hans þurfi að bjarga Úkraínumönnum frá miklum voða, gott ef ekki nasistum? Af hverju fær hann að heilaþvo fólk?
Minn grunur er að efnahagslegar ástæður séu fyrir mörgum stignum ógæfusporum. Vopnaframleiður eru í bissniss, demantaseljendur og aðrir lúxuskappar vilja ekki missa peningalegan spón úr aski sínum. Það er minn grunur og mig grunar að grunur minn sé réttur. Kapítalisminn er ekki alvondur en hann þarf eftirlit svo græðgin verði ekki allsráðandi.
Athugasemdir
Nei ég held að Pútín sé ekki að hugsa um hagsmuni heildarinnar og sé orðinn nýr Stalín eða Hitler. En þú ert að spyrð af hverju hann sé ekki stöðvaður? Fyrst er að útrýma kjarnorkuvopnum hjá öllum aðilum. Sá ótti hefur lengi verið ræddur að ef öfgafullir Múhameðstrúarmenn eða aðrir hættulegir kæmust yfir kjarnorkuvopn yrði heimurinn í hættu. Nú þarf að nota diplómatískar lausnir, og fara vel að Pútín, hann er óútreiknanlegur með gereyðingarvopn.
Ég er sammála þér með Sif Sigmarsdóttur. Hún er bæði hnyttin og fyndin í pistlum sínum, og segir oft rétta hluti.
Ingólfur Sigurðsson, 12.3.2022 kl. 10:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.