Fimmtudagur, 17. mars 2022
Ég heiti Ísbjörg, ég er ...
Þið þekkið þessa bók, Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón. Hún kom að vísu út 1989 þannig að kannski þekkið þið hana bara ekki neitt. En það er svo merkilegt að þótt hún sé 33 ára er hún um samtíma okkar. Hún er um ofbeldi, uppeldi, skort á uppeldi, gerendur, meðvirkni og þolendur. Þetta er svo sem ekki álitlegasta léttlestrarefnið til að stytta sér kalsaveturinn sem virðist endalaus um þessar mundir. Og það er ekkert áhlaupsverk að komast í gegnum fyrri helminginn eða mér fannst alltént fyrri hlutinn tyrfinn og óaðgengilegur. En í seinni hlutanum var ég verðlaunuð þegar þræðirnir byrjuðu að þéttast og sagan af Ísbjörgu að taka á sig skýrari mynd.
Ég las hana nýútkomna en man harla lítið eftir því. Enn síður man ég - og kannski vissi ég það heldur ekki - að höfundurinn varð fyrir aðkasti. Já, Vigdís Grímsdóttir fékk haturspósta og hótanir, skemmdarverk voru unnin á eignum hennar og henni og börnum hennar haldið í einhvers konar heljargreipum ... af því að hún sagði sögu.
Ísbjörg elst upp við ofbeldi sem er sýnt í bókinni en ekkert ofsagt í þeim efnum. Við hittumst nokkur í gærkvöldi og töluðum saman um bókina og eitt og annað hafði farið framhjá okkur, mismunandi þættir frásagnarinnar. Það er nefnilega galdurinn, að eftirláta lesandanum að ráða í textann en gera þannig um leið skynsamlega kröfu um færni til að lesa á milli línanna. Mér finnst ekkert að því að aðrir lesendur bæti mína upplifun.
Ég er farin að merkja lesnar bækur á Goodreads, ansi hreint góðri síðu til að halda utan um lesnar bækur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.