Bataferli - eða ekki

Ég þekki mann - bróður minn - sem hefur verið í meintu bataferli hjá SÁÁ eða AA í áratugi. Hann er fæddur 1961, byrjaði að drekka 11 ára og hætti endanlega um 27 ára aldur. Ég ætla ekki að segja að hann hafi beitt mig ofbeldi en ég var klárlega meðvirk með ástandi hans í langan tíma.

Nú þegar ég les frásögn af meðmælum Frosta hjá SÁÁ rifjast enn einu sinni upp álit mitt á bróður mínum sem ég segi núna fullum fetum að sé vond manneskja. Einhver gæti sagt veik manneskja en þá segi ég að AA hjálpi honum greinilega ekki neitt. Fyrir fjórum árum fór allt upp í loft á milli okkar þegar ég loksins áttaði mig á hvaða mann hafði að geyma.

Mér finnst ekki erfitt að segja frá honum og missi ekki svefn yfir honum eða glötuðum tíma sem ég fórnaði á hann. Ef ég sé eða heyri í útvarpinu í lögmanninum sem hann réð sér til að hafa af mér pening fæ ég hins vegar hroll því að sá tók skýra afstöðu með veikum/vondum manni. Lögmenn samsama sig ekki skjólstæðingum sínum en við ráðum öll hvernig verkefni við tökum að okkur og umræddur lögmaður vissi alveg að hann varði vondan málstað. Lögin eru stundum hliðholl vondum málstað og þegar hrekklaust fólk (ég er ekki að tala um mig í þessu samhengi) treystir t.d. börnunum sínum getur allt farið á versta veg. Mín sýn er sú að Gummi bróðir hafi spilað áratugum saman á ótta foreldra okkar við að hann félli aftur í fang áfengisins. Málið er að áfengið er bara ein birtingarmynd vandans, karakterinn er stóri vandinn.

Gummi situr uppi með sjálfan sig og að hafa hrakið í burtu sitt nánasta fólk. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband