Föstudagur, 15. apríl 2022
Aftökur? Á samfélagsmiðlum? Í alvöru?
Ég er ekki þolandi og ég veit ekki um þá þolendur sem ég þekki. Þá meina ég að þolendur í mínum umgangshóp hafa ekki stigið fram. Ég ímynda mér líka að það sé ofboðslega erfitt að segja frá vegna þess að þá finnst fólki það vera að játa á sig dómgreindarbrest. Þolendur hafa margir treyst sínum nánustu, í fyrsta lagi treyst þeim sem fólki og svo treyst þeim fyrir sögum sinum og upplifunum.
Það er miklu auðveldara að vera keikur og segja að ekkert sé að. Kynslóð eftir kynslóð hefur tekið þann pólinn í hæðina. Um leið og maður ber sig illa er maður orðinn fórnarlamb og á svo á hættu að vera sakaður um uppspuna, athyglissýki - og að taka geranda sinn af lífi þegar þolandinn fær opinberan stuðning.
Það er erfitt að skrifa um þetta, hvort sem maður er áhorfandi eða í hlutverki. Ég finn að ég kem þessu sennilega ekki skýrt frá mér en ég finn svo innilega til með þolendum og óttast á sama tíma mína eigin gerendameðvirkni því að í þeim efnum er líka nóg framboð og margir pyttir að falla í.
Um daginn sagði góð kona í mín eyru: Hvað ætlum við að vera með marga gerendur á framfæri hins opinbera? Þá hafði einhver gerandi stigið út úr starfi sínu og sviðsljósinu.
Ég get alveg tekið undir með henni, en hvað með alla þá þolendur sem eru á örorku með kvíðaraskanir og ofanda þegar gerendurnir eru alls staðar sýnilegir?
Ég vil að fólk hegði sér. Af hverju verður fólk stjórnlaust og beitir ofbeldi? Er það geðslag, uppeldi eða fíkniefni?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.