Stóra plokkið - fyrirfram eða eftir á?

Mér finnst mín hugmynd a.m.k. jafn góð og hugmynd Einars Bárðarsonar um stóra plokkdaginn. Hendum ekki rusli á göturnar eða annars staðar í náttúrunni. Pössum okkur þegar við tökum buffið eða símann úr vasanum að snýtubréfið fjúki ekki burt. Sveitarfélögin tæmi tunnurnar og endurnýi eftir þörfum þannig að botninn detti ekki úr.

Í einu orði: Forvarnir.

Ég tek upp tilfallandi rusl þegar ég er á gangi. Að sjálfsögðu. En ég ætla ekki út með poka á sunnudaginn til að tína upp sígarettustubba sem reykingamenn hafa meðvitað hent frá sér á víðavangi eða hundaskít sem hundaeigendur hafa látið undir höfuð leggjast að taka með sér.

Hirðum ruslið fyrirfram en ekki eftir á.

Auðvitað geta orðið slys en ef fólk passaði sig væri miklu minna rusl að tína upp. Og ef sveitarfélög byðu upp á fleiri ruslafötur væri auðveldara að henda sælgætisbréfinu eða kókómjólkurfernunni jafnóðum en ekki troða í vasa eða stinga í töskur og missa svo kannski frá sér í vindinum.

Forvarnir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband