Léttlest til Keflavíkur og innanlandsflugið með, takk

Ég var að lesa merkilegan þráð hjá Hallgrími Helgasyni. Hann er ólæstur þannig að allir Facebook-notendur geta lesið hann. 

Ég hef ekki farið til útlanda í tvö ár og þrjá mánuði en fór þá á bíl og skildi eftir á langtímastæði. Þar áður tók ég einmitt strætó af því að ég ferðaðist á dagvinnutíma. Ferðalagið tók drjúgan tíma með löngum rúnti um Reykjanesbæ og svo var endastöðin einhvers staðar í góðri fjarlægð frá flugstöðinni.

Seinna var mér sagt (án ábyrgðar) að það væri vegna þess að Strætó mætti ekki keppa við Kynnisferðir. Ef maður ætlar að nota almenningssamgöngur úr höfuðborginni til alþjóðaflugvallar skal maður skipta við eina fyrirtækið sem má auglýsa ferðir sínar (ég veit samt af Airport Direct). Önnur leiðin kostar 3.500 krónur.

Í kringum mig verð ég vör við að fólk skutlar og lætur skutla sér og þá ekki síður sækja sig og ég hef sannarlega verið í þeim sporum sjálf. Áætlun áætlunarrútuferðanna er mjög óábyggileg og kostar sum sé drjúgan pening.

Ég geri ráð fyrir að lagning léttlestar og rekstur hennar kosti slatta en það er ekki bara hægt að meta kostnað í þeim krónum eða evrum sem kostar að koma verkefninu á koppinn. Ýmsar aðrar breytur skipta máli, eins og bílastæðaflæmið, augljóslega tími fólks og svo vegurinn sjálfur sem þyrfti þá minna viðhald. Með því fylgir þá hugsunin um minna svifryk, færri slys og almennt minni mengun.

Og innanlandsflugið - á fáu hef ég haft eins skýra og óbreytta skoðun í áratugi. Innanlandsflugvöllur á ekkert erindi í Vatnsmýrinni. Vatnsmýrin má verða byggingarland eða friðað land mín vegna (vegna vistkerfis þá) og flugvélar ættu ekki að fljúga yfir miðbæinn í gríð og erg. 

Ég er farin að halda að einkahagsmunir Kynnisferða (og hverjir eiga fyrirtækið?) ráði ÖLLU í þessu máli.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband