Konan hans Sverris - vá

Ég er frekar skælin þegar ég horfi á eða les eitthvað hjartaskerandi. En nú er ég búin að lesa skáldsögu(?) um heimilisofbeldi sem er skrifuð af svo mikilli yfirvegun að augun í mér stóðu á stilkum og ég gaf mér ekki ráðrúm til að beygja af. Ég er ekki að segja að það sé kostur að gráta ekki með sársaukanum en ég kann sannarlega að meta þennan frásagnarstíl. Hann er náttúrlega líka í stíl við aðferðafræðina sem Hildur tileinkar sér til að reyna að hafa í fullu tré við siðleysingjann sem hún býr með í 17 ár og losnar svo alls ekki við þegar hún skilur loks við hann.

Ég vil ekki falla í gryfju mælginnar heldur vera hófstillt í anda bókarinnar. Ég hef sjálf ekki átt í svona tilfinningaríku ofbeldissambandi en er ansi hrædd um að það sé illa falið í fortíð fjölskyldu minnar og kannski í vinahópnum. Ég vildi að ég vissi hvernig ég ætti að verða að liði ef ég vissi af svona meðvirkni í kringum mig en spilling og meðvirkni þrífst í skugganum af þögn og þegjandahætti. Og það er helvítis vítahringur sem er erfitt að rjúfa vegna þess að þögnin og vitundarleysið er þægilegra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband