Mánudagur, 30. maí 2022
Skatturinn er í stríði
Ég
vil
borga
skatta.
Skatturinn dregur núna um mánaðamótin 75% af annars útborguðum launum mínum af því að ég var með verktakatekjur í fyrra. Ég hakaði við að ég vildi borga allan verktakaskattinn 1. júní en reiknaði með að fá rukkun, jafnvel sundurliðaða, í heimabankann.
Skatturinn hefur áður gert þetta og það þótt ég hafi verið skuldlaus og hann þurft að hundskast til að endurgreiða mér. Þetta er mikil orkusuga og tímasóun, bæði hjá mér og nokkrum starfsmönnum Skattsins.
Ég ítreka að
ég
vil
borga
skatta
til samneyslunnar
en ég bið um gagnsæi og upplýsingar. Það er Skattinum ofviða.
Mikið vildi ég óska þess að annað fólk stigi fram og segði sína sögu. Það er útilokað að ég sé ein um þetta.
Ef ég er með yfir 450.000 kr. í verktakatekjur yfir árið á ég að skila skatti í hverjum mánuði. En verktakatekjurnar eru mjög tilfallandi af því að ég vinn venjulega dagvinnu og mér finnst ekki óeðlilegt að fá að gera upp einu sinni á ári.
En Skatturinn gerir mér lífið eins erfitt og honum er unnt.
Fyrirvaralaust fæ ég 196.000 kr. útborgaðar 1. júní. Inni í heildarlaunum fyrir maí eru 25 yfirvinnutímar (auðvitað unnir) og 77 tímar af bakvakt.
Ég get líklega þakkað fyrir að þurfa ekki að kljást við Útlendingastofnun eða Tryggingastofnun. Ég er fullfrísk, vel læs á texta og ágætlega læs á tölur en stend oftast á gati yfir meintum leiðbeiningum Skattsins.
Mig langar alveg að arga en ég hef ekkert upp úr því. Ég þarf bara að móast við og reyna að koma vitinu fyrir Skattinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.