Mánudagur, 13. júní 2022
Hjólahvísl
Það er svakalegt að hjólum sé stolið í massavís. Og það er þannig, nú ríkir faraldur. Annars hefði Bjartmar hjólahvíslari ekki orðið svona opinber persóna. Lögreglunni virðist vera alveg sama, er kannski of fáliðuð, of peningasvelt, of áhugalaus eða allt þrennt.
En í dag endurheimti ég hjól sem var stolið frá mér fyrir tæpum mánuði. Þetta var ekki burðugt hjól. Það kostaði 70.000 fyrir þremur árum og hefur verið notað drjúgt í þrjú ár. En það dugir og þess vegna var gott að fá það til baka.
Sá sem fékk það upp í hendurnar auglýsti það á Facebook-síðu, vinkona mín kom auga á það og sendi mér ábendingu. Sá sem var með það var í virkri neyslu þangað til fyrir þremur árum en er nú búinn að snúa við blaðinu, innilega glaður og jákvæður fjölskyldufaðir.
Héðan í frá ætla ég að hafa hjólið oftar inni og ég ætla að kaupa mér betri lás. Auðvitað borgaði ég hjólahvíslaranum fyrir viðvikið en við viljum ekki að hann hafi of mikið að gera við að sortera stolin hjól, auglýsa og geyma heima hjá sér.
En ég fékk ögn meiri trú á hið góða í fólki í dag.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.