Sunnudagur, 10. júlí 2022
Hugmynd í kjarasamninga: Réttur til sanngjarnra launa
Ég dregst stundum aftur úr í blaðalestri og núna var ég loksins að lesa grein Sigmars Vilhjálmssonar í Mogganum þótt ég hafi svo fundið hana á visir.is þegar ég gúglaði.
Hugmynd í kjarasamninga: Fyrstu átta tímar á vakt á dagvinnu
Ég heyrði auðvitað um þetta fyrr í mánuðinum og nú hefur rykið aðeins sest. Þegar ég les loks pistilinn blandast mér ekki hugur um að fyrir þessum atvinnurekanda vakir aðeins eitt og það er að lækka launakostnaðinn hjá sjálfum sér. Það er alveg skiljanlegt að menn vilji draga úr útgjöldum en ekki með því að pakka því inn í einhvern meintan glaðning handa fjölskyldufólki.
Ég var í ferðaþjónustunni á mínum yngri árum. Þetta var reynt þar. Það var ekki löglegt og fyrir því reyndist enginn hljómgrunnur.
Setjum sem svo að Simmi fengi sitt fram og starfsmaðurinn sem mætti til hans kl. 16:15 kæmi beint úr annarri vinnu, ætlaði þá Simmi að borga honum aukaálag fyrir að vinna svona mikið og vera svona lengi að heiman? Ég heyrði engan spyrja hann um það.
Ég er núna að lesa nýja sænska skáldsögu þar sem mansal kemur við sögu, ekki kynlífsþrælkun heldur innfluttar konur sem eru látnar þrífa hús fyrir lítinn pening, ekkert atvinnuöryggi og almennt ekkert öryggi. Þær eru gerðar út með ryksugu og moppu. Ég er svo sannarlega ekki að gera Simma upp slíkar pælingar en þetta er ótrúlegt leiðarminni í norrænum krimmum og sennilega af því að einhver fótur er fyrir þessu vandamáli.
Áar okkar gengu í gegnum hreinasta helvíti við að koma á réttlátara atvinnuumhverfi sem við njótum góðs af í dag. Eftir 50 ár verða afkomendur okkar kannski bit á því hvað við létum bjóða okkur en við sem erum nú á dögum getum a.m.k. ekki liðið afturhvarf til þess tíma þegar atvinnurekendur mökuðu krókinn en launþegar löptu dauðann úr skel.
Að því sögðu vil ég segja - sem launþegi - að ég hef oft samúð með atvinnurekendum af því að þetta er línudans. Hvenær er starfsmannafjöldinn réttur? Hvað eru sanngjörn laun? Hvað getur maður beðið starfsmanninn um mikið og hvenær er maður farinn að ganga á rétt hans?
Við viljum öll sveigjanleika og mér finnst hann skilyrðislaust þurfa að virka í báðar áttir. Við eigum samtöl og símtöl fyrir okkur sjálf á vinnutíma og mér finnst engin frágangssök þótt ég svari í símann stöku sinnum eða lesi nokkra tölvupósta þegar ég er komin heim.
En sú hugmynd að fyrstu átta tímar hvers dags á vinnustaðnum séu á dagvinnutaxta er svo frámunalega langt utan við alla skynsemi að sem betur fer var hún skotin í kaf á fyrstu viku.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.