Fimmtudagur, 21. júlí 2022
,,Viltu missa vinnuna?"
Ég hlustaði í gær á Reykjavík síðdegis og inn hringdi maður sem sagðist vera orðinn of fullorðinn til að læra á heimabanka og færi þess vegna í bankaútibú sem fer nú fækkandi. Hann sagði að hann hefði spurt gjaldkerann þegar hún spurði hvort hann væri ekki með heimabanka: Viltu missa vinnuna? og þá hefði gjaldkerinn þagnað.
Ég get alveg skilið að fólki finnist vont að missa útibúin þótt ég finni ekki fyrir því, en að spyrja fólk hvort það vilji ekki halda vinnunni við að gera það sem fólk getur sjálft gert í flestum tilfellum finnst mér jaðra við móðgun.
Fyrir 100 árum báru vatnsberar vatn í hús. Hey var rakað með hrífum. Píanó voru borin á öxlum. Nær í tíma: Talsímaverðir tengdu fólk í gegnum skiptiborð. Starfsfólk á bókasöfnum myndaði bækur lánþeganna. Filmur voru framkallaðar hjá Hans Petersen. Ræður voru skrifaðar handvirkt upp hjá Alþingi.
Listinn gæti verið langtum lengri. Flestir taka framförum fagnandi en sumir staldra svo við sjálfsafgreiðslukassana í stórmörkuðum og gjaldkera í bönkum.
Við höldum ekki útibúum opnum til að starfsfólkið hafi áfram vinnu. Við höfum áfram útibú ef ekki er hægt að þjónusta fólk öðruvísi og betur. Það má vel vera að lokanirnar séu of hraðar en þá á þeim forsendum, ekki þeim að fólk eigi vinnuna sína.
Ég er sjálf launþegi og hef séð breytingar í mínu fagi. Ég hef að sönnu ekki misst vinnu nokkurn tímann en myndi glöð færa mig um set ef til þess kæmi. Maður má ekki festast svo í einu starfi að maður geti aldrei unnið neitt annað og - guð minn góður - ef vél getur gert það sem ég gerði fagna ég bara þeirri svakalegu byltingu. Ég vil fást við meira krefjandi störf en þau sem hægt er að mata vél á.
Ég vil svo að endingu segja að ég er líka leiðsögumaður og ef hægt verður að útbúa vél sem sýnir farþegum áhuga, hlustar ekki síður en talar, leysir vandamál - er það bara fínt, en ég sé ekki að farþegar myndu gera sig ánægða með þá þjónustu að svo komnu máli. Ekki heldur með vélræna mennska leiðsögumenn sem festast í frösum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.