Sunnudagur, 18. september 2022
Eddan
Já, ég var að horfa á Edduna. Sumt var skemmtilegt en ekkert eins skemmtilegt og Gríman var um daginn (eða kannski í vor).
Ég óska auðvitað vinningshöfum og öllu skapandi fólki til hamingju með uppskeruna og með það að hætta ýmsu til til að kæta okkur hin, en miðað við þakkarávörpin hlýt ég að álykta að sjónvarp Símans komi sterkast inn og út úr þessu geimi, svo oft var Pálma Guðmundssyni þakkað.
En ég verð að nöldra fyrir hönd málfræðihjartans sem í mér býr. Af hverju voru verðlaunin veitt *nefnifall?
Þau voru sum tilnefnd fyrir *Katla en akkúrat í ár var ég þakklát fyrir Dýrið sem er eins í nefnifalli og þolfalli.
Og sérstaklega fagnaði ég því að Vika Gísla Marteins fékk verðlaun - út af örfáum háværum niðurrifsröddum. Ég er sem sagt ekki ein í aðdáendaklúbbnum.
Ég á greinilega eftir að sjá fullt af góðum bíómyndum - ég held að ég hafi enn enga séð af þeim sem voru til umræðu í Háskólabíói áðan.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.