Sunnudagur, 9. október 2022
Ferðafélag Íslands og Menntaskólinn við Hamrahlíð
Ég er alin upp af feðraveldinu. Þegar ég var barn þótti ekkert tiltökumál þótt þessi eða hinn klipi eða klappaði á hina og þessa staði á ókunnugu og vandalausu fólki. Ég á engar minningar um það sjálf en kannski hef ég bara grafið þær, ég hef oft sagt að ég muni ekkert frá fyrstu 15 árum ævi minnar.
Fyrir svo sem 12 árum var ég leiðsögumaður í tæpa viku með lítinn hóp. Bílstjórinn var mjög ágengur við mig og ég vil meina að hann hafi skemmt ferðina. Hann skildi ekki nei og þótt mér hafi tekist að forða mér hafði framkoma hans áhrif á alla ferðina. Þegar við vorum komin í bæinn sagði ég frá þessu á ferðaskrifstofunni. Þeim var alveg sama. Þegar ég sagði öðrum frá þessu, sjálfsagt ekki sérlega mörgum, var öxlum almennt yppt. Í kringum 2010 var ekki enn orðið viðurkennt að hegðun gæti verið ósæmileg, óviðeigandi og til þess fallin að skapa ónot.
Ég hef ekki unnið aftur fyrir þessa ferðaskrifstofu en það mætti segja mér að bílstjórinn væri þar enn og það mætti segja mér að hann hefði haldið áfram að strjúka leiðsögukonum um vangana. Ég gaf honum alls enga ástæðu til að hegða sér eins og hann gerði.
Ég er í Ferðafélagi Íslands, kannski mest styrktaraðili sum árin, en ég fékk tölvupóst frá settum forseta fyrir rúmri viku þegar kjörinn forseti sagði sig frá embættinu og úr félaginu. Ég veit ekkert hvað er satt í þessu máli - ekki neitt - ég veit ekki hvort einhver hefur reynt að fá einhvern aftur inn í stjórn eða hvaða fararstjóri hefur farið yfir mörk. Ég veit bara það að núverandi forseti er út frá lífaldri sínum alin upp af feðraveldinu eins og ég og bréfið sem ég fékk lyktaði langar leiðir af því veldi.
Ég er að reyna að ala sjálfa mig upp í anda nýrra tíma og þarf sannarlega að minna mig á að sumt þarf ekki að líðast. Og ég var himinsæl með að ég skyldi hágráta yfir fréttatímanum þegar MH-ingar sögðu: Við erum kynslóðin sem ætlar að breyta þessu.
Mér finnst stundum svolítil slagsíða í baráttunni, yngsta kynslóðin gera miklar kröfur áður en hún sannar sig á nokkurn hátt, en þá klíp ég mig í kinnina og minni mig á að vogin þarf að fara niður hinum megin áður en hún getur rétt sig af.
Og hér er tölvupóstur sem ég skrifaði um hugleiðingar mínar eftir FÍ-málið:
Ég veit heldur ekkert meira en það sem hefur komið fram í fjölmiðlum þannig að ég get bara valið hverju/m ég trúi. Mér finnst ofsalega langsótt að Anna Dóra, sem þótti gríðarlegur happafengur fyrir FÍ, sé að skálda þetta og hreinlega ljúga upp á Tómas Guðbjartsson. Þangað til annað kemur í ljós trúi ég frekar Önnu Dóru en Sigrúnu Valbergs - af því að meðvirkni með feðraveldinu er enn svo assgoti landlæg. Ég þarf stundum að hnippa í sjálfa mig, t.d. þegar ég hlusta á yfirheyrslur yfir mönnum sem er búið að sanna kynferðisglæpi á - og ég vorkenni þeim! Ég hugsa: Hann var þunglyndur, hann var vinalaus, hann átti hvergi heima ... eða: Hann hefur svo breitt og fallegt bros.
Ég er að segja ykkur það: Meðvirknin er svo sjúklega ísmeygileg að við erum öll í hættu. Sumt ungt fólk, 20-30 ára kannski, finnst mér stundum öfgakennt en þá þarf ég líka að minna mig á að jafnvægisvogin þarf að hallast hraustlega í hina áttina áður en hún nær jafnvægi.
Já, þetta hugsaði ég eftir að lesa pistil Sigrúnar og viðbragð þitt, [...]. En ég átta mig líka á að ég veit ekki nærri allt um þetta mál þannig að kannski þarf ég einhvern tímann að éta ofan í mig trú mína á Önnu Dóru.
Ég vona innilega að aldamótakynslóðin snúi misréttið niður en við megum ekki láta hana eina um það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.