Lúxusvandamál hins vinnandi verktaka

Á síðasta ári var ég með á fjórðu milljón í verktakalaun. Af þeim borga ég skatt með glöðu geði en finnst leiðinlegt að reikna það út þannig að það hefur bara gerst með skattframtalinu árið á eftir. 

Í dag fékk ég fyrirvaralaust inn í heimabankann minn rukkun upp á 457.987 kr. og útgefandi þess reiknings var Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda. Ég skil alveg að einhver hugsi að óttalega sé ég nú vitlaus að hafa ekki borgað jafnóðum í lífeyrissjóð en ég hef mér til afbötunar að verktakagreiðslur mínar í fyrra voru óvenjuháar og fyrri ár hafði ég endurskoðanda sem nú er orðinn fullorðinn og hættur störfum og ég hélt að allt væri forskráð og fyrirhafnarlaust.

Ég leyfi mér að ítreka að mér finnst mjög leiðinlegt að hugsa um bókhald en er ansi góð í sumu öðru, t.d. því sem verkkaupar borga mér fyrir að gera.

Ég var svo lánsöm að ná sambandi við skrifstofu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda áður en henni var lokað og þar var eitt og annað útskýrt fyrir mér. Það sem þau gátu ekki sagt mér var hvers vegna Sigurbjörn Sigurbjörnsson, fæddur í ágúst 1965, er skráður eini raunverulegi eigandi - hvers? Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda! Sjá skjáskot:

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 1

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 2

Af upphæðinni, sem var gjaldfelld og sett á eindaga 10. janúar sl., eru 34.454 kr. dráttarvextir og 16.160 kr. annar kostnaður. Og ég fæ enga sundurliðun fyrr en Póstinum þóknast að bera út til mín umslag með þessum upplýsingum. Það er nefnilega ekki hægt að hnippa í mig fyrr en krafan hefur verið stofnuð og þá er hægt að prenta út sundurliðaðan reikning, setja hann í umslag, fara með á pósthúsið og láta bera út til mín - í þarnæstu götu.

Það verður ekki á kerfið logið.

Og fyrir hvað er ég að borga tæplega hálfa milljón? Rétt til að taka úr lífeyrissjóði þegar ég kemst á lífeyristökualdur ... en þó því aðeins að lífeyrissjóðunum - já, eða Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda - takist að ávaxta peningana mína.

Er annars býsna spræk og á fyrir þessum óvæntu útgjöldum enda bæði vinnusöm og hagsýn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband