Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda - raunverulegur eigandi?

Ég fékk rukkun í heimabankann á þriðjudaginn vegna lífeyrisgreiðslna sem ég hafði ekki staðið skil á sem verktaki. Sjálfsagt alveg rétt og ég er búin að borga hana - með 15% vöxtum sem SL finnst tilhlýðilegt (og sjálfsagt löglegt) að leggja ofan á miðað við gjalddaga sem SL valdi. Ég vona að það sé þá hin almenna ávöxtun sem ég njóti góðs af þegar ég fer að taka lífeyri.

Áður en ég sættist við þetta, samt með eftirgangsmunum, skoðaði ég SL í fyrirtækjaskrá. Manneskja sem ég tek mark á segir að SL sé ekki illa rekinn sjóður þannig að ég er alveg sæmilega róleg og held ekki að ég hafi kastað innborguninni á eldinn, en mér finnst grunsamlegt að SKRÁÐUR RAUNVERULEGUR EIGANDI (svo skráð) sé einstaklingur. 

Ég hafði orð á þessu við starfsmann á þriðjudaginn og mér var sagt að skráði eigandinn væri framkvæmdastjóri. Gott og vel, ætti þá ekki raunverulegur eigandi að vera skráður undir þeirri yfirskrift? Eftir helgi ætla ég að splæsa í annað símtal eða tölvupóst og reyna að fá úr þessu skorið. Erum við sem greiðum í sjóðinn kannski hinir raunverulegu eigendur? Getur sjóðurinn farið á hausinn? Er þetta áhætturekstur?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hugtakið "raunverulegur eigandi" er bastarður í lagasafninu.

Fjöldi fólks um allt land er skráð "raunverulegir eigendur" að félögum sem enginn á, svo sem húsfélögum og almannasamtökum.

Prófaðu til dæmis að fletta Neytendasamtökunum upp í fyrirtækjaskrá og þá sést að stjórnendur samtakanna eru skráðir sem "raunverulegir eigendur" þó að enginn sé raunverulega eigandi þeirra samtaka.

Vitleysan nær svo hámarki ef þú reynir að komast að því hverjir eru raunverulegir eigendur bankanna, fyrirtækja sem grunlaus maður gæti haldið að gera þyrfti ströngustu kröfur til í þessum efnum. Nei, þar kemur ekkert fram um raunverulega eigendur heldur eru starfsmenn raunverulegra eigenda skráðir sem slíkir þó þeir sjálfir eigi jafnvel ekkert í bönkunum.

Allt er þetta sagt vera í nafni varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Húsfélög virðast talin í meiri hættu fyrir slíku en bankar. Aldrei fór fram nein greining á því hversu oft húsfélög hafa verið misnotuð í því skyni, en vitað er að það hafa bankar oft verið.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.10.2022 kl. 15:27

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég skoðaði einhverja banka eftir að lesa þetta og það er öðruvísi. Hins vegar er skráningu greinilega ábótavant og upplýsingar alls ekki marktækar.

Berglind Steinsdóttir, 16.10.2022 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband