Fimmtudagur, 20. október 2022
Afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrá
Ég kom við á Austurvelli áðan til að halda upp á 10 ára afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrá, fékk mér kökusneið og kaffi og stakk þúsundkalli í bauk. Meðan ég staldraði við átti ég gott spjall við þrjá aðra afmælisgesti.
En ég ætla að minnast þessa dags fyrir annað í prívatlífi mínu. Ég sendi nefnilega Skattinum beiðni um virðisaukaskattsnúmer og reikna nú með að þurfa að bíða í minnst þrjár vikur eftir svari og ég óttast líka að svarið verði fyrsta kastið: Þetta vantar ...
Ég vil alls ekki fá þetta númer en mér er nauðugur sá kostur ef ég vil halda áfram að prófarkalesa skýrslur sem ég er fær í og hef óskaplega gaman af. Eins og staðan er hentar öllum betur, þ.m.t. mér, að ég vinni fyrir ýmsa frekar en að vera í föstu 100% starfi hjá einum aðila - eins og ég gerði þó í 19 ár.
20. október 2022 verður sem sé afmælisdagur þessa dramatíska skrefs míns.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.