Sunnudagur, 6. nóvember 2022
Orkestret á RÚV
Ég hámhorfði um helgina á Hljómsveitina (Sinfóníuhljómsveitina) sem er sýnd í línulegri dagskrá á þriðjudagskvöldum en 10 þátta serían er líka komin eins og hún leggur sig í spilarann.
Ég er hvorki með Netflix né Viaplay og þaðan af síður Stöð 2 enda hef ég oftast ekki undan að horfa á áhugaverða þætti og myndir á RÚV. Og allamalla, hvað Hljómsveitin var skemmtileg þáttaröð. Sumt er vissulega dálítið ótrúverðugt hjá fullorðnu fólki en ekkert í líkingu við Trúðinn (Klovn, sem ég hlæ eiginlega aldrei að svo það komi líka fram).
Aðalpersónan Jeppe er marglaga. Hann vill gera öllum til hæfis og gerir þess vegna engum til hæfis. Hann er hinn fullkomni eiginmaður og faðir í fyrsta lagi en konan hans ekki hin fullkomna eiginkona. Í vinnu er hann stimamýktin uppmáluð og á erfitt með að taka skýra afstöðu og skera úr um mál. En svo breytist það ...
Aðalpersónan Bo er sturlað skemmtilegur. Hann er uppstökkur og dálítið sér á báti en svakalega góður klarinettuleikari. En hvað finnst hinum í hljómsveitinni um hann? Hvernig er að skara fram úr?
Og allt hitt fólkið var svo skemmtilegar týpur líka.
Danir og danskt sjónvarpsefni rokkar. Kannski ég fái mér á endanum Viaplay enda heyrði ég líka um helgina vel látið af Badehotellet.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.