Laugardagur, 25. febrúar 2023
Pallborðið á Vísi
Ég ætla að segja það sem ég hef verið að hugsa. visir.is, sem sagt einkafjölmiðill, stendur sig miklu betur en ríkisfjölmiðillinn í að upplýsa mig um gang mála í kjaradeilunni sem skekur, tjah, allt mitt líf þótt ég eigi persónulega nánast ekkert undir. Helstu áhrifin eru að ég gæti mögulega ekki komist á gönguskíðanámskeið til Siglufjarðar um næstu helgi.
En visir.is stóð sem sagt fyrir klukkutímalangri umræðu við deilendur í kjaraviðræðum Eflingar og SA sem ég horfði á undir kvöld í gær. Ég gat varla slitið mig frá þættinum enda var hann ríkulega myndskreyttur. Mitt mat er að bæði Sólveig og Halldór séu á síðustu bensíndropunum og innilega til í að fara að lenda málinu. Og þá er líklega rétt að ég haldi því hér til haga að ef ég væri hvort þeirra sem er hefði ég gefist upp fyrir viku. Þess vegna er ég ekki í kjaraviðræðum og enginn myndi velja mig til þeirrar forystu. Og ég get líka bætt því við að fyrir hönd leiðsögumanna hóf ég einu sinni kjaraviðræður við SAF/SA (2002) og það var við þvílíkt ofurefli að etja að ég þakkaði mínum sæla þegar formannsárinu mínu lauk og ég gat dregið mig í hlé. Forkólfar atvinnurekenda eru með her manns á fullum launum við að mæta litlum stéttarfélögum sem eru rekin af sjálfboðaliðum - ekkert fékk ég a.m.k. borgað - og þau sem eru ekki hreinlega meðvirk og haldin Stokkhólmsheilkenninu gefast bara upp fyrr en síðar og þiggja þá hungurlús sem að þeim er rétt. Kjör leiðsögumanna eru ekki í neinu samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til þessa andlits ferðaþjónustunnar.
Og ég held að obbinn af þeim 90% stéttarfélaga sem framkvæmdastjóri SA hreykir sér í sífellu af að hafa samið við hringinn í kringum landið ráði ekki við lögfræðingastóðið sem SA búa yfir. Viðsemjendurnir eiga bara fullt í fangi með að sinna vinnunni og mæta svo til samninga í fátæklegum frítíma sínum.
Engu að síður held ég að þessir tveir turnar, Efling og Samtök atvinnulífsins, muni lenda samningi fyrir 2. mars með fulltingi setts sáttasemjara og e.t.v. miðlunartillögu sem sé ekki snýtt úr nösum Samtaka atvinnulífsins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.