Þriðjudagur, 7. mars 2023
Verkastúlka á síðustu öld
Það var að rifjast upp fyrir mér að þegar ég var 18 eða 19 ára vann ég eitt sumar hjá Nóa-Síríus við að pakka síríuslengjum og öðru súkkulaði í neytendapakkningar við færiband. Mér fannst sumarið stórskemmtilegt og vinnan bara alveg ljómandi enda nýkomin á vinnumarkað þannig lagað. En annað tvennt er mér líka minnisstætt, annars vegar að fyrirtækinu þóknaðist að borga mér eftir unglingataxta sem var ekki til og það ætlaði svo að hlunnfara mig um orlofsdaga sem ég ávann mér á fjórum mánuðum.
Þegar ég áttaði mig á þessu fór ég á skrifstofu forstjórans og fór fram á leiðréttingu sem ég fékk ekki. Þá hafði ég samband við stéttarfélagið sem knúði fram leiðréttingu. Hún náði til jafnaldra minna sem höfðu fengið greitt eftir sama taxta.
Ég fékk leiðréttingu greidda með ávísun sem ég tók ljósrit af og átti lengi. Ég á hana kannski enn en veit þá ekki hvar hún er. Ég man að þegar búið var að draga af launatengd gjöld og þess háttar stóðu eftir 918 krónur enda erum við að tala um níunda áratuginn.
Ég held að of mörg stór fyrirtæki muni alltaf reyna að hlunnfara andvaralaust starfsfólk sitt.
Ég þarf væntanlega ekki að taka fram að mér bauðst hvorki jólavinna í konfektinu né páskaeggjavinna næsta vetur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.