Þriðjudagur, 4. apríl 2023
Að arfleiða eða að gefa
Nú hafa þrír þingmenn lagt fram frumvarp um að foreldrum leyfist að arfleiða börnin sín skattfrjálst að peningum. Eðli frumvarpa er að vera tillaga, hugmynd, grundvöllur að frekari umræðu og þannig skil ég þetta frumvarp. Frumvarpshöfundar líta varla á upphæðina 10 milljónir sem heilaga eða að hvort foreldri geti arfleitt hvert barna sinna að 10 milljónum. Það eru náttúrlega takmörk fyrir því hvað fólk á margar 10 milljónir til útdeilingar, jafnvel þó að það sé komið á efri ár.
Ég er ekki endilega ósammála þeirri hugsun sem ég held að ráði hér ríkjum. Hins vegar finnst mér tímasetningin dálítið skrýtin. Þjóðin eldist og eldist og þegar fólk fellur frá eru börn viðkomandi sjálf orðin vel sjálfbjarga, kannski af því að foreldrarnir hafa hlaupið undir bagga við fyrstu kaup íbúðar.
Fyrstu íbúðarkaup eru nú um stundir nánast ómöguleg á Íslandi nema einhverjir ættingjar létti undir með kaupendum. Og á sama tíma er fólk í námi og að eignast fyrstu börnin sín. Þess vegna þyrfti meintur arfur að koma fyrr inn í myndina eða - það sem blasir við - ungu fólki gert kleift að leggja fyrir nóg til að kaupa sér fyrstu íbúð eða - sem líka blasir við - að þroska leigumarkaðinn svo að fólk geti leigt sér íbúð, jafnvel alla ævi, án þess að fara í áhættufjárfestingar.
Við erum skattlögð þegar við fáum launin, við borgum virðisaukaskatt þegar við förum út í búð og svo borga erfingjar skatt af arfinum. Ég hef aldrei alveg skilið af hverju fólk má ekki bara gefa fólki það sem það á án afskipta ríkisins en skiljanlega vill fólk ekki svipta sjálft sig öllu í lifanda lífi.
Ef Skatturinn hefði líka áhuga á að eltast við allt og alla hefði hann átt að sitja um bróður minn sem foreldrar okkar gáfu einhverjar milljónir. Bróðir minn, Gummi, er óvirkur alkóhólisti með mikla eyðsluþörf og lítinn tekjuvilja og mamma og pabbi voru sífellt að bjarga honum fyrir horn. Ég hugsaði og sagði að þau ættu peningana sína og mættu gefa þeim sem þau vildu. Ég sá bara ekkki fyrr en langtum seinna að þau voru meðvirk með honum og óttuðust sífellt að hann félli aftur fyrir áfengi og hlóðu þess vegna undir hann.
Kannski eru svona týpur ástæðan fyrir því að foreldrar mega ekki gefa börnum sínum, sérstaklega einu af fjórum, háar fjárhæðir. Það er einhvers konar jöfnuður.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.