Laugardagur, 6. maí 2023
Borgarskjalasafn, héraðsskjalasöfn og MS+Kvennó
Það getur vel verið að hið mistæka KPMG hafi í öllum ofangreindum tilfellum ráðlagt niðurlagningu og sameiningu. Ég er áskrifandi að póstlistanum Gammabrekku og hef fylgst með umræðu sagnfræðinga um að því er virðist fyrirvaralausa niðurlagningu Borgarskjalasafnsins sem a.m.k. borgarskjalavörður sagðist fyrst hafa heyrt af í fjölmiðlum.
Fljótlega eftir umræðuna um Borgarskjalasafn les maður að leggja eigi niður héraðsskjalasafnið í Kópavogi og sameina eitt og annað.
Fjármunum á að forgangsraða upp á nýtt.
Svo vill menntamálaráðuneytið kanna fýsileika þess að sameina Kvennaskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Sund í húsnæði í Stakkahlíð. Í Kvennó er bekkjakerfi en í MS þriggja anna kerfi. Þegar ég var í MS var hið frábæra sleppikerfi - ef maður stóð sig vel allan veturinn þurfti maður ekki að taka vorpróf nema í útskriftarfögunum.
Alls staðar kveinar fólk yfir þessum hugmyndum og kannski eru þær afleitar. En ég er í eðli mínu breytingasinni og vil skoða allar hugmyndir um breytingar í þeirri trú að gott vaki fyrir fólki.
Er útilokað að þessar breytingahugmyndir stafi af umbótavilja? Er það útilokað? Ég hef nefnilega hvergi heyrt hósta eða stunu í þá veru. Getur verið að yfirvöld, hvaða flokki sem þau tilheyra, vilji alltaf bara taka slaginn við fólkið sem vinnur vinnuna?
Til viðbótar: Við lifum á tímum hraðra tækniframfara. Skiptir það ekki máli?
Ég verð þreytt og leið á þessari einsleitu umræðu og að fá ekki þær upplýsingar sem kynnu að skipta máli.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.