Þriðjudagur, 16. maí 2023
Leiguverð of lágt
Þið eruð örugglega búin að sjá og/heyra fyrirsögnina hafða eftir stjórnarformanni leigufélagsins Ölmu sem var í viðtali við Kristján Kristjánsson á Sprengisandi á sunnudaginn. Hann er kannski klár að ota sínum tota og hagnast en frá mínum bæjardyrum séð er hann fullkomlega ólæs á samfélagið og þennan markað sem hann segist vera á.
Ég hef sjálf gert útreikninga miðað við 7% vexti og veit að venjulegur íbúðareigandi sem fer kannski burtu í tvo mánuði eða ætlar að leigja íbúðina sína í ár þarf að rukka leigjendur um 2,7 milljónir á ári + plús einhverja hlutfallslega viðbót vegna viðhalds, óhappa og fasteignagjalda. Það eru þá ríflega 200.000 kr. fyrir rúmgóða tveggja herbergja eða litla þriggja herbergja íbúð.
Húsnæði er dýrt, sagði Gunnar Þór Gíslason, og það er laukrétt. Þess vegna þarf sá sem er á markaði og ætlar að hafa lifibrauð sitt af leigjendum að hagræða eins og hægt er og hugsa til langs tíma. Það er eðlilegt að menn fái laun fyrir vinnuna sína en ekki óhóflegar arðgreiðslur.
En svo sannarlega gætu stjórnvöld látið meira til sína taka. Eins og Andrés Magnússon læknir sagði í Silfrinu um helgina er út úr kortinu að þrír embættismenn í Seðlabanka Íslands hafi meira vægi í sambandi við húsnæðismál fólks en allir kjörnir fulltrúar landsins, allt atvinnulífið og öll verkalýðsforystan.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.