Laugardagur, 20. maí 2023
Atburðir við sænskt vatn
Þvílíka spennuserían sem Händelser vid vatten er. Ég gat ekki horft nógu hratt. Svo skilst mér að bók sé til með sama nafni en mér finnst lýsingin ekki passa við söguþráð þáttanna. Lýsingunni á henni hjá Hljóðbókasafninu svipar meira til þáttanna eins og ég upplifði þá.
Hvað sem því líður eru þættirnir sem RÚV hefur verið að sýna og eru í spilaranum um unga kennslukonu sem flytur norður í rassgat með sjö ára dóttur sína til að elta skyndiást sem kviknaði á námskeiði í Stokkhólmi. Og það átti aldeilis eftir að hafa afleiðingar fyrir Annie og Miu.
Sagan sem er sögð er vissulega samfélags(gagn)rýni en miklu meira átakasaga einstaklinga, þroskasaga þeirra á 18 árum og svo auðvitað morðgáta. Einangrunin í samfélaginu er eiginlega ávísun á vandræði ... en ég ætla að ljóstra því upp að fálkinn - verðmæti fuglinn - er mikill áhrifavaldur ...
Kerstin Ekman skrifaði bókina 1993 þannig að hún var ekkert að ímynda sér samfélagið án nettengingar og farsíma. Allar boðleiðir voru seinfarnar og þarna norður í rassgatarófu voru sumir akvegir hálfgerðir göngustígar. Ég fæ hroll við tilhugsunina sem ég sit hér í sólríka sófanum mínum. Ég myndi ekki endast viku í fríi á svona stað, a.m.k. ekki ef ég hefði á tilfinningunni að allir væru að fela eitthvað.
Athugasemdir
Ég las bókina á sænsku (Händelser vid vatten eftir Kerstin Ekman) fyrir nokkrum árum og fannst hún mjög áhrifamikil. Þá horfði ég svolítið fram hjá spennuvinklinum. Söguþráðurinn er nokkuð flókinn og ég var búinn að gleyma því hver gerði hvað af sér svo það var gott að sjá þættina sex. Það sem eftir sat í minninu var stórkostleg náttúra og landslag þarna nyrst í Svíþjóð. Í myndunum fær maður að sjá pílagrímsfálkann sem ég hafði aðeins lesið um! Einnig saga Sama (sem áður voru kallaðir Lappar) og niðurlæging þeirra og kúgun sem var ekkert annað en rasismi. Inn í þetta fléttast dularfull menntakona frá Helsingfors og ein aðalsöguhetjan flýr undan illgjörnum og ofbeldisfullum hálfbræðrum til nágrannalandsins Noregs og sest seinna að í Þrándheimi. Ekki hvað síst snýst sagan um bernskar útópíur 68- kynslóðarinnar sem undir stjórn heillandi gúrús geta snúist í stalíníska kúgun meðlimanna, í þessu tilfelli kommúnubúa. Annað er enn í fullu gildi eins og réttindabarátta Sama, barátta fyrir vernd villtrar náttúru og fyrir friði.
En flestir hafa séð í gegnum andlýðræðislega hlið þessara hreyfinga á umræddum tíma. Erfiðara er að koma auga á slíkt í samtímanum!
Allt í allt er niðurstaðan sú að saga Ekman er annað og miklu meira en bara spennusaga spennunnar vegna. Eins og góðar skandinavískar glæpasögur eiga að vera!
Sæmundur G. Halldórsson , 20.5.2023 kl. 13:45
Já, bókin er tvímælalaust komin á leslistann, ábyggilega mjög áhrifamikil eins og þú lýsir henni.
Berglind Steinsdóttir, 21.5.2023 kl. 17:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.