Ég öfunda sjómenn

Sjómenn eiga sjómannadag, og af honum öfunda ég þá. Sá dagur er í dag.

Ég óttast hins vegar að hann nýtist ekki sem skyldi, að dagurinn sé að verða hvorki hátíðardagur né baráttudagur. Og af hverju er það? Er búið að taka allan slagkraft úr sjómönnum? Ræna þá allri náttúru? Allri baráttugleði?

Í Reykjavík er hátíð hafsins. Ég heppin, ætla að líta á furðufiskana á hafnarbakkanum á eftir. Ég var sjálf störfum hlaðin í gær sem leiðsögumaður.

Ég er náttúrlega ekki síður öfundsverð en sjómenn. Ég fæ borgað fyrir að gera það sem mér finnst skemmtilegt. Í gær var ég sérlega öfundsverð því að þá fór ég ásamt Inga ökuleiðsögumanni í sleðaferð á Langjökul með tvo farþega. Við brunuðum upp og niður brekkur, æfðum hallann og sneiddum hjá grjóthnullungum. Dúndrandi dekur og ekkert annað.

Jökull er takmörkuð auðlind og verður æ hverfulli. Maður þarf að keyra lengra til að komast í öruggan snjó. Þetta er kikk fyrir farþegana - og okkur hin. Jamm, maður er öfundsverður.

En mikið vildi ég að við hefðum okkar dag þar sem framlag ferðaþjónustunnar væri heiðrað, metið, rætt og endurskoðað. Vissulega er 21. febrúar alþjóðadagur leiðsögumanna og vissulega hefur Stefán Helgi Valsson bryddað upp á ýmsu með fulltingi Félags leiðsögumanna - en við þurfum að bera saman bækur okkar og kynna starfið betur. Af hverju er jökullinn t.d. blár sums staðar? Af hverju er himinninn blár?

Það verður spennandi að sjá hvort nýjum ráðherra ferðamála dettur eitthvað í hug.

Svo vona ég að sjómenn nái vopnum sínum á ný því að a.m.k. ég geri mér grein fyrir mikilvægi þeirra. Til hamingju með daginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband