Föstudagur, 14. júlí 2023
Hakkið á Facebook
Ég þarf bara að puðra úr mér ergelsi yfir að Facebook-síðan mín hafi verið hökkuð. Í gær fékk ég skilaboð frá góðri vinkonu sem bað mig um símanúmerið mitt. Ég hugsaði: Já, en ég er í símaskránni, en sendi henni það samt. Hún er týpan sem setur hjörtu með öllum færslum. Svo sagði hún mér að ég hefði unnið 810.000 kr. í SMS-leik og bað mig um mynd af kortinu mínu. Þá náttúrlega sá ég hvernig í pottinn var búið.
Þetta var í gær.
Áðan fékk ég síðan skilaboð í tölvupósti um að ég hefði nýlega breytt um netfang á Facebook-síðunni og hvort ég vildi staðfesta það. Og ég sver að hotmail-netfangið mitt fylltist í vetur þannig að ég hef verið að breyta um netfang á ýmsum stöðum síðan og þarna gekk ég í gildruna og byrjaði að svara. Svo fór fólk að láta mig vita unnvörpum að ég væri að bjóðast til að leggja inn hjá því í skilaboðum.
Ég hringdi í góðan vin áðan sem þurfti að endurnýja síðuna sína í vor út af hakkaðri síðu og ég sé fram á að þurfa að byrja á nýrri vinasöfnun innan skamms.
Ergilegt.is. Og nú ætla ég að leggja mig og vona að vandamálið hverfi meðan ég hef augun aftur. Eða ekki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.