Laugardagur, 16. desember 2023
Verkfall flugumferðarstjóra
Mér kemur millilandaflugið mikið við. Ég á eftir að fljúga heim í janúar, túristar á mínum vegum eiga eftir að fljúga til Íslands í desember og fjölskyldumeðlimir að fljúga til mín í næstu viku. Ég held að flugumferðarstjórar séu vel settir og ættu að taka því sama og aðrir hafa fengið.
En útspil Samtaka atvinnulífsins fær mig næstum til að skipta um skoðun á kjörum flugumferðarstjóra. Ef tjónið er þegar farið að hlaupa á milljörðum skiptir greinilega mjög miklu máli það sem þau gera í vinnunni.
Ferðaþjónustan hefur einstakt lag á að skjóta sig í fótinn. Ég veit að Samtök atvinnulífsins eru ekki Samtök ferðaþjónustunnar en hvor tveggja samtökin þjóna atvinnulífinu. Og ferðaþjónustan kveinar undan lélegri afkomu en þegar eitthvað gerist, eins og brú brotnar og er ekki hífð upp á næsta klukkutímanum, kveinar ferðaþjónustan undan tjóni upp á milljarða.
Það er ekki hægt að kvarta undan lélegri afkomu og sturluðu tjóni vegna afkomubrests í sama orðinu, það er bara ótrúverðugt.
Og nú er Sigríður Margrét Oddsdóttir langt komin með að sannfæra mig um að flugumferðarstjórar eigi betra skilið en þeim hefur verið boðið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.