Mánudagur, 22. janúar 2024
Orð gegn orði
Mér finnst ...
Ég fullyrði að Ebba Katrín á stjörnuleik í Orði gegn orði sem ég sá í gærkvöldi í Kassanum. Hún fór með textann af fullkomnu öryggi. Með styrkri leikstjórn sýndi hún ólíkar persónur, aðalpersónuna auðvitað og svo kennarann með því að halda ímynduðum penna undir hökunni og mömmu sína með sígarettuna. Hún fór í og úr lögmannsskikkjunni, úr dragtinni og í kjól sem þjónaði því að sýna hana sjálfa á ólíkum stundum. Þegar hún var orðin fórnarlamb hafði framkoman gjörbreyst, hún geislaði ekki lengur af sjálfsöryggi þeirrar sem hefur yfirhöndina vegna yfirburðaþekkingar á málefnasviðinu heldur var Tessa miður sín og algjörlega sannfærð um að hún gæti ekki unnið eigið mál.
Þið vitið um hvað ég er að tala, þið þekkið efni þessa leikrits sem hefur mikið verið rætt.
Það er alltaf erfitt að standa undir væntingum sem hafa verið blásnar upp. Ég fullyrði aftur að leikkonan er framúrskarandi en MÉR FANNST ekkert nýtt í leikritinu. Við vitum öll að sönnunarbyrðin í kynferðisbrotamálum er erfið vegna þess að það er ORÐ GEGN ORÐI, vegna þess að oft eru þau bara tvö (já, yfirleitt karl og kona) til frásagnar, vegna þess að fórnarlambið efast um eigin upplifun, eigið minni, bæði vegna þess að viðkomandi brýtur sig sjálf niður og vegna þess að krafan um lögræðilegan sannleika er svo afgerandi.
Tölfræðin sýnir þetta.
Sýningin var að því leyti vonbrigði að hún kom mér hvergi á óvart og varpaði engu nýju ljósi á veruleika brotaþola. Að auki hefði ég viljað fá staðfærslu. Tessa, Julian og Richard urðu mér fjarlæg vegna nafnanna. Endalausar leigubílaferðir stungu í stúf. Og loks ætla ég að lýsa yfir að sýningin er 20 mínútum of löng. Tæpir tveir tímar með engu hléi á leikhússtólum eru of margar mínútur í þessu samhengi. Langdregna kynninguna í upphafi hefði auðveldlega má stytta til muna.
En leikkonan var frábær og öll sviðsmyndin sömuleiðis.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.