Þriðjudagur, 5. mars 2024
Iðnaðarmenn
Engir iðnaðarmenn standa að mér síðan pabbi féll frá. Hann var rafvirki og fagmaður fram í fingurgóma, kunni fagið, var sanngjarn, mætti á réttum tíma og almennt stóð við allt sitt.
Undanfarið hef ég verið með smið í vinnu við að laga hjá mér þröskuld. Þar eru sko ófá handtök, get ég sagt ykkur. Það þarf að ná þröskuldinum upp, smíða nýjan, máta, laga, lakka og koma svo aftur fyrir.
Við höfum aðeins spjallað og ég sagði honum m.a. að ég hefði alltaf verið heppin með iðnaðarmenn sem er eins gott þar sem ég er ekki handlagin og þarf að treysta á aðra með allt svona. Hann er sjálfur nánast hættur að vinna vegna aldurs og hefur sáralítilla hagsmuna að gæta. Hann sagði mér að iðnaðarmenn tvíbókuðu stundum suma daga vegna þess að kúnninn á það alveg til að hætta við verk sem búið er að semja um og það með stuttum fyrirvara. Þegar menn eru í harki og lausamennsku er vont að fá upphringingu á sunnudegi til að afpanta margra daga vinnu sem á að hefjast daginn eftir.
Ég þekki ekki þessa kúnna en eitthvað segir mér að það sé nokkuð til í þessu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.