Sunnudagur, 19. maí 2024
Elías Auðar Haralds (1947-2024)
Nú er ég búin að lesa þrjár af Elíasarbókunum eftir Auði Haralds heitna. Ég var, og er, mikill aðdáandi hennar en hafði einhvern veginn samt ekki lesið hinar svokölluðu unglingabækur hennar. Guð minn góður, ég hló upphátt á hverri síðu. Elías er ábyrgi einstaklingurinn í þriggja manna fjölskyldu þar sem mamma hans og pabbi eru bæði mikið úti á þekju og til viðbótar stinga þau höfðinu í sandinn ef hætta steðjar að, þá helst þegar Magga frænka boðar komu sína eða - það sem er auðvitað hálfu verra - þegar hún birtist óforvarandis með kúst og kassa til að hjálpa þeim að pakka þegar þau flytja til Kanada.
Lýsingarnar eru náttúrlega óborgaralega fyndnar en á sinn lymskulega hátt tekst Auði að stinga að lesendum heilræðum og uppeldisráðum, allt í gegnum leik og glens.
Þvílíkur hvalreki sem Auður var fyrir bókmenntirnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.