Sunnudagur, 25. ágúst 2024
Helvítis lögmenn?
Fyrirsögnin endurspeglar ekki mína skoðun. Ég trúi alveg að í lögmannastétt eins og mörgum öðrum stéttum séu rotin epli en skoðun mín og reynsla af lögmönnum er ekki að þau séu helvítis neitt.
Ég er að hluta til verktaki og á dálítið erfitt með að rukka sanngjarnt verð. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en í fyrra að Skatturinn rukkar mig um 6,35% tryggingagjald sem dekkar Fæðingarorlofssjóð og Atvinnuleysistryggingasjóð. Mér finnst meira en sjálfsagt að taka þátt í samneyslunni en ég hafði sum sé ekki leitt hugann að þessu. Tekjuskattsprósentan hækkar með hækkandi tekjum en ef ég námunda tekjuskattinn í 35% borga ég 4.135 kr. af hverjum 10.000 kr. í skatt og tryggingagjald. Svo þarf ég sem verktaki að draga 8% af upphæðinni til að leggja í lífeyrissjóð og sem minn eigin launagreiðandi þarf ég að bæta við 7% þannig að ég þarf að taka 1.500 kr. af 10.000 kr. tímagjaldinu til hliðar fyrir lífeyrissjóð sem okkur finnst sumum ekki sérlega áreiðanleg ávöxtunarleið. Svo þarf ég að gera ráð fyrir orlofi (sem er að lágmarki hugsað sem 10,17%) og veikindum sem ég þarf sjálf að mæta af tekjunum mínum. Sá búnaður sem ég nota úreldist og ég þarf að endurnýja, aðallega tölvu og síma, svo og svo oft.
Þetta er ekki hugsað sem kveinfærsla, ég er bara að átta mig á þessu þetta árið.
10.000 kr. tímagjald er þannig ekki hátt tímagjald í verktöku.
En í fyrra þurfti ég að byrja að leggja 24% virðisaukaskatt ofan á tímagjaldið og mér leið eins og ég væri að hækka tímagjaldið MITT um 24%. Mér fannst það óþægilegt en þau sem ég dæsti yfir þessu við töluðu um *helvítis lögmennina* sem gætu vel borgað og ættu fúlgur fjár.
Þó að lögmenn rukki 25.000 kr. á tímann eða mögulega meira er það ekki upphæð sem rennur öll í vasa viðkomandi. Til viðbótar því sem ég tel upp (og ég veit að hægt er að telja fram kostnað á móti) eru lögmenn með skrifstofur og yfirbyggingu, starfsmenn og aukinn rekstur. Lögmenn með mikil umsvif hafa væntanlega góðar tekjur en allt er þetta samt óvissu háð. Vinnan er öll verkefnadrifin (og, jú, ég veit að það á líka við um ýmsar aðrar stéttir) og tekjur geta dottið niður en kostnaðurinn ekki.
Ef mér á ekki að finnast óþægilegt að leggja 24% ofan á reikninga til lögmanna og ráðuneyta (sem þarf ekki að gera með fyrstu 2 milljónir ársins), má mér þá finnast það ef ég vinn fyrir fátækt bókasafn? Og ef vinnan er virðisaukaskattsskyld, af hverju er hún það ekki fyrr en eftir fyrstu 2 milljónirnar? Og ef það á að vera eitthvert krónuviðmið, af hverju hækkar það ekki á milli ára eða a.m.k. á tveggja ára fresti?
Athugasemdir
Þessi launtengdu gjöld sem verktakar þurfa að standa skil á eru einmitt þau sömu og öll fyrirtæki sem hafa launþega í vinnu hjá sér þurfa að standa skil á vegna þeirra. Þess vegna þurfa verktakar að verðleggja þessi gjöld inn í tímagjaldið alveg eins og fyrirtæki þegar þau verðleggja vöru og þjónustu sem þau selja og já, einmitt þess vegna endurspeglar hátt tímagjald ekki endilega há laun heldur mögulega bara háan kostnað. Sem dæmi þurfa lögmenn og ýmsar aðrar stéttir að vera með lögbundnar starfsábyrgðartryggingar og kostnaðinn við þær þarf að setja inn í tímagjaldið en sá peningur rennur ekki í vasa viðkomandi heldur til tryggingafélagsins sem hann er tryggður hjá.
Tilgangurinn með 2 milljón króna frítekjumarkinu fyrir virðisaukaskatt held ég að sé til að gera þeim sem eru aðeins með tilfallandi starfsemi auðveldara um vik með það og þurfa ekki að standa í flókinni og íþyngjandi pappírsvinnu í kringum skil á virðisaukaskatti. Sem dæmi má nefna handverksfólk sem framleiðir eitthvað í hjáverkum heima hjá sér, svo sem með því að prjóna föt eða búa til minjagripi og selja á netinu, jafnvel fyrir lítið. Það er svo góð spurning hvers vegna þessi tiltekna upphæð og hvers vegna hún breytist ekkert milli ára? Við því á ég ekki gott svar. Þetta er kannski eins og frítekjumark fjármagnstekjuskatts, bara einhver tala sem var ákveðið að setja í lögin á sínum tíma án þess að einhver sérstök vísindi hafi búið að baki þeirri ákvörðun.
Guðmundur Ásgeirsson, 25.8.2024 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.