Þriðjudagur, 27. ágúst 2024
,,Vindurinn veit hvað ég heiti"
Ég var að klára bók eftir Isabel Allende sem var gefin út á síðasta ári en kom út í íslenskri þýðingu á þessu ári. Fyrstu hughrif voru mjög mikil, ég hágrét yfir vissum köflum sem vísuðu beint í sögulegar staðreyndir um morð á heilu þorpi og almennt ofbeldi. Isabel er núna nýorðin 82 ára og alls ekki dauð úr öllum æðum en þegar á bókina leið varð hún þurrari og þurrari. Ég ræddi hana við bæði systkini mín sem voru búin með hana og þeim fannst hún lala sem mér fannst skiljanlegra þegar upp var staðið.
Höfundur er of mikið að flétta saman sögulega harmleiki þannig að söguþráðurinn geldur fyrir það. Engu að síður verð ég mér alltaf meðvitaðri eftir lestur á bókum af þessu tagi að ég bý við mikil forréttindi, friðsælan heimshluta og örugga lífsafkomu. Stór hluti heimsins getur ekki gengið að því vísu, og núna vissulega ekki ríki í Evrópu og guð hjálpi okkur ef appelsínugula viðrinið verður kosið í Bandaríkjunum eftir rúma tvo mánuði.
Ekkert er sjálfgefið, gleymum því ekki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.