Góðir grannar eftir Ryan David Jahn

Lúxusvandi minn er að ég á of mikið af ýmsu, þar á meðal bókum. Nýlega fór ég í flugferð og ákvað að taka með mér eina af bókunum úr Neon-bókaklúbbnum sem ég var í fyrir rúmum áratug. Margar bækurnar hafði ég ekki tekið úr plastinu.

Nokkrar voru alveg álitlegar og ég valdi Góða granna. Hún er skáldaga en byggir á sannri sögu um unga konu sem vinnur á bar og þegar hún er á heimleið eftir langa vakt ræðst á hana maður og stingur. Hann ætlar að drepa hana. Þau þekkjast ekkert. Ekkert. 

En þetta er ekki það áhugaverðasta við bókina. Það áhugaverða er að margir nágrannar hennar sem búa í sömu blokkinni í Bandaríkjunum horfa upp á árásina út um gluggana sína. Af því að þau voru svo mörg - þrátt fyrir að glæpurinn væri framinn um miðja dimma nótt - héldu þau að eitthvert hinna myndi hringja á lögregluna eða skakka leikinn með öðrum hætti.

Sagan er í 50 köflum og þeir fléttast á ýmsu vegu. Meðan Kat berst fyrir lífi sínu er okkur sagt frá unga manninum sem annast dauðvona móður sína, sjúkraflutningamanninum sem rekst á geranda sinn, manninum sem kemur hálfur út úr skápnum, hjónunum sem fara í makaskipti og spilltu lögreglumönnunum.

Kannski geri ég mistök í að telja þetta upp vegna þess að það gæti virst eins og höfundur hafi ákveðið að tefla fram mestallri ógæfu sem þjakar mannkynið en allar þessar meinsemdir fá sitt eðlilega rými og flæði. Ég er ekki vel lesin í Ernest Hemingway en mér varð hugsað til hans meðan ég las og Njarðar P. Njarðvík sem kenndi mér ritlist á sínum tíma. Höfundur dregur nefnilega upp skýrar og hnitmiðaðar myndir með hófstilltum texta sínum, matar ekki lesandann heldur eftirlætur okkur að glöggva okkur sjálf.

Ég gáði hvort höfundurinn hefði skrifað fleiri bækur. Já, en þær hafa ekki verið þýddar og eru heldur ekki til á ensku á bókasöfnunum. 

Ég vil gjarnan lána áhugasömum lesendum bókina en ég ætla ekki að fara með hana á ókeypis vagninn í Kringlusafni eða Laugardalslauginni eins og sumar aðrar bækur, a.m.k. ekki fyrr en ég hef melt hana aðeins lengur. Og ÞAÐ eru skilyrðislaus meðmæli með bókinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband