Ráðherrann II

Nú eru búnir þrír þættir af nýju seríunni Ráðherrann II og enginn að tala um hana! Ég var gagntekin eftir fyrsta þáttinn og okkur tveimur systkinum kom saman um að hann væri frábær. Hann var sýndur sama dag og ríkisstjórninni var slitið. Nánast engin umræða varð nálægt mér um þann þátt, aðeins ég og bróðir minn ræddum hann. Svo leið vika og þá var þátturinn þar sem þunglyndið í gervi blaðberans ásótti ráðherrann mjög líkamlega. Við Trausti alveg dolfallin. Engin umræða í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum eða kaffistofum sem við urðum vör við.

Eftir þáttinn á sunnudaginn var fór ég aðeins að spyrja fólk í kringum mig og þá kom á daginn að öllum sem ég heyrði í og öllum sem þau höfðu heyrt í fannst þátturinn óhemjuleiðinlegur, ósannfærandi og klisjukenndur.

Ég er ósammála. Ráðherrann er með geðsjúkdóm sem er erfiður viðureignar en hann heldur honum í skefjum með lyfjum. Það er áhugavert umfjöllunarefni sem mér finnst nálgast á fallegan og nærfærinn hátt. En aðalefnið finnst mér eiginlega vera að þarna á að vera maður í pólitík með einlægan vilja til að hlusta á fólk og taka ákvarðanir byggðar á almannahagsmunum. Af hverju kveikir það ekki áhuga fólks?

Og Ólafur Darri - maður minn, hann er stórkostlegur leikari. Ég hlakka til að horfa næstu fimm sunnudagskvöld á Ráðherrann II. Ég er líka eins spennt og bogi yfir öllum pólitísku hlaðvörpunum sem hellast yfir okkur nú þegar og verða úti um allt næsta mánuðinn.

Komi nóvember fagnandi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og þremur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband