Óljós eftir Geir Sigurðsson - saga af lúða

Titillinn minn er ekki illa meintur þótt Leifur Tómasson sé sannkallaður lúði. Bókin nær að halda lesandanum allan tímann og það er ekki lúðalegt þótt aðalpersónan sé það, þótt Leifur sé tilþrifalaus, áhrifalaus, uppburðarlaus og framtakslaus. Á heilli mannsævi (67 árum) verður honum þó eitthvert smotterí úr verki, hann fer í nám til Þýskalands, landar háskólakennslu í faginu sínu af því að fyrir tilviljun er eftirspurn eftir þess konar þekkingu þegar hann kemur heim, hann eignast væna konu og með henni tvö gjörvileg börn og svo barnabörn. Hins vegar er hann óvinsæll kennari, eignast enga vini í vinnunni eða utan hennar, fær ekkert gefið út og stendur alltaf í skugganum af litla bróður sínum sem hefur slegið í gegn í Frakklandi og kemur einstaka sinnum til Íslands til að stafa geislum sínum á fjölskylduna.

Við starfslok er hann enn meira núll og nix en meðan hann var þó í starfi, búinn að missa Petru sína, á enga sjálfsmynd og börnin hans eru næstum búin að afskrifa hann. Á þriðja æviskeiðinu sparkar hann því sjálfum sér til Kína og þar gerast undarlegir hlutir sem eru í fjarstæðu sinni næstum trúverðugir af því að hann tekur aldrei neinar ákvarðanir um líf sitt, heldur veltist áfram í einhverju gruggi.

Öll bókin, tæpar 200 síður, er óður til tilvistarinnar eða skortsins á henni. Allt líf mannsins er bara dropi í heimssögunni og skiptir engan neinu máli nema hann sjálfan og hans nánustu og jafnvel varla það. Það er frekar niðurdrepandi tilhugsun fyrir okkur flest að við skiptum ekki máli, að þegar búið verður að hola okkur niður að jarðvistinni lokinni líði í mesta lagi nokkrir áratugir þangað til við verðum öllum gleymd. 

Bókin stingur ekki upp á neinum lausnum í þessu efni þannig að við verðum sjálf að finna okkur tilgang og sætta okkur við að við erum bara augnablik í eilífðinni, mismiklir lúðar með ósagðar sögur af tilþrifalitlu lífi.

Þá vil ég gera orð eins af gestum mínum í fyrndinni að mínum:

Kom og fer. Gaman á milli.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og þremur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband